Erlent

Einn sviptur valdi sínu sem lögga eftir skothríðina í Nasvhille

Samúel Karl Ólason skrifar
Minnst níu lögregluþjónar skutu Landon Easton til bana þegar hann þóttist taka byssu úr vasa sínum. Í um hálftíma höfðu fjölmargir lögregluþjónar reynt að fá hann til að leggja frá sér dúkahníf.
Minnst níu lögregluþjónar skutu Landon Easton til bana þegar hann þóttist taka byssu úr vasa sínum. Í um hálftíma höfðu fjölmargir lögregluþjónar reynt að fá hann til að leggja frá sér dúkahníf. AP/Lögreglan í Nashville

Forsvarsmenn lögreglunnar í Nashville í Bandaríkjunum hafa svipt einn lögregluþjón valdi eftir atvik þar sem fjölmargir lögregluþjónar skutu mann sem vopnaður var dúkahníf. Umræddur lögregluþjónn skaut síðustu skotunum, eftir að aðrir lögregluþjónar hættu að skjóta.

Í síðustu viku skutu minnst níu lögregluþjónar hinn 37 ára gamla Landon Eastep til bana. Hann var vopnaður dúkahnífi. Um hálftíma áður hafði lögregluþjónn nálgast hann þar sem Eastep sat við hraðbraut í Nasvhille og boðið honum aðstoð.

Þegar Eastep var skotinn þóttist hann vera að taka upp byssu úr vasa sínum en hann reyndist einungis vera með dúkahnífinn. Minnst níu lögregluþjónar skutu þó Eastep.

Eins og sjá má á myndinni hér að ofan voru margir lögregluþjónar á vettvangi. Einn þeirra, Bryan Murphy, stóð til hliðar vopnaður riffli. Eftir að aðrir lögregluþjónar hættu að skjóta, skaut Murphy tveimur skotum að Eston með rifflinum.

Í frétt Tennessean segir að Murphy hafi verið sviptur valdi sínu sem lögregluþjónn. Það sé gert á meðan rannsókn fari fram á athæfi hans. Það er ákveðið ferli vestanhafs sem felur í sér að hann starfar enn innan lögreglunnar en hefur ekki það umboð sem lögregluþjónar hafa.

Það felur í sér að hann er enn í vinnu hjá lögreglunni en má ekki stöðva fólk, handtaka það eða rannsaka glæpi.

Lögreglan í Nashville birti myndband úr vestismyndavél eins lögregluþjóns. Hægt er að sjá myndbandið í gegnum tístið hér að neðan en vert er að vara við því að það gæti vakið óhug lesenda.

Joy Kim brough, lögmaður fjölskyldu Eastep, segir Eastep hafi lenti í aftöku. Hann hafi ekki verið að angra neinn. Þá sagði hún að Eastep hefði átt að fá aðstoð heilbrigðisstarfsmanna og ekki vera skotinn þrjátíu sinnum.

Ég held að þeir hefðu átt að reyna að útvega honum aðstoð. Þeir hefðu ekki átt að standa þarna með byssur á lofti, tilbúnir að skjóta, fengju þeir tækifæri til,“ sagði hún á blaðamannafundi um helgina, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Fréttaveitan segir einnig frá því að John Drake, yfirmaður lögreglunnar í Nashville, ætli að láta skoða viðbrögð lögreglunnar í þessu tilfelli og kanna hvort breyta þurfi starfsreglum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×