Innlent

Fólk geti gert ráð fyrir að mæta ekki í vinnu og skóla í fyrra­málið

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum. Vísir/Baldur

Al­manna­varnir funda nú með Veður­stofunni og Vega­gerðinni um hvort biðlað verði til skóla að hafa lokað á morgun og vinnu­staða að fá starfs­fólk sitt seinna til vinnu. Búist er við því að mjög þung­fært verði á höfuð­borgar­svæðinu í fyrra­málið og vilja Al­manna­varnir að sem fæstir séu á ferð á meðan verið er að ryðja göturnar.

„Það er bara það mikil snjó­koma með þessu að það má búast við að það verði ó­fært víða, sem tekur bara tíma að hreinsa. Við höfum séð það áður að það tefur mjög mikið fyrir svo­leiðis ef það er mikið af bílum sem fara af stað, þannig að við bara hvetjum alla til að bíða heima í fyrra­málið og sjá hvernig staðan verður. Fylgjast vel með fjöl­miðlum,“ segir Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá Al­manna­vörnum.

Vega­gerðin fer í að ryðja göturnar um leið og færi gefst en það verk gengur hraðar fyrir sig ef sem fæstir eru á ferð um bæinn.

Rauða veður­við­vörunin er í gildi á höfuð­borgar­svæðinu til klukkan átta í fyrra­málið.

„Þó að kannski aðal­leiðir verði opnar þá vitum við bara hvernig svona ó­veðurs­dagar eru. Bara ef leigu­bílar fara van­búnir af stað og festast þá stoppar allt. Alveg sama hversu vel búinn þú ert þá eru bara aðrir sem verða fyrir þér. Þannig að við bara hvetjum alla til að gera ráð fyrir því að geta ekki mætt í vinnuna klukkan átta í fyrra­málið,“ segir Víðir.

Svipað og fyrir tveimur árum

Hann segir ó­veðrið líkjast því sem varð í febrúar 2020 en þá var rauð veður­við­vörun gefin út á höfuð­borgar­svæðinu í fyrsta skipti síðan lita­kóða­kerfið var tekið upp árið 2017.

„Það má alveg búast við því að lausa­munir muni fjúka. Við sáum svona svipað veður í febrúar 2020, þá voru þök að fjúka og hús að skemmast þannig það má alveg búast við slíku tjóni,“ segir Víðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×