Handbolti

Patrekur: Algjörir klaufar að hafa ekki unnið þennan leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Patreki Jóhannessyni fannst sínir menn full linir í leiknum gegn Haukum.
Patreki Jóhannessyni fannst sínir menn full linir í leiknum gegn Haukum. vísir/hulda margrét

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, gat ekki leynt vonbrigðum sínum eftir tapið fyrir Haukum í kvöld. Leikurinn var í járnum allan tímann en Haukar tryggðu sér sigurinn með því að skora síðustu fjögur mörkin.

„Við klúðruðum einhverjum færum og svo vorum við alltof linir í vörninni. Við töpuðum stöðunni einn gegn einum,“ sagði Patrekur í samtali við Vísi í leikslok.

„Í fyrri hálfleik vorum við þéttir í vörninni og markvarslan var góð. Í sókninni unnum við stöðuna einn gegn einum ekki nógu oft. Við vorum algjörir klaufar að hafa ekki unnið þennan leik og ég er ógeðslega svekktur með það.“

Staðan í hálfleik var jöfn, 13-13, þrátt fyrir að Arnór Freyr Stefánsson hafi varið eins og berserkur í marki Stjörnunnar.

„Við nýttum það illa. Við vorum alltof linir. Það komu kaflar á milli og við skoruðum 29 mörk en þeir löbbuðu í gegnum vörnina okkar trekk í trekk. Það voru auðvitað menn að koma inn en það er engin afsökun. Þetta var bara lélegt hjá okkur,“ sagði Patrekur.

Þetta var fyrsti leikur liðanna síðan um miðjan desember og Patrekur segir að það hafi sést í kvöld.

„Bæði lið voru lengi í gang og eðlilegt ryð en mér fannst við eiga að gera betur og vinna þennan leik. Þetta var algjörlega okkar klúður að loka þessu ekki. Þú sérð það, ég er mjög svekktur,“ sagði Patrekur að lokum.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×