Til samanburðar voru vöruskipti óhagstæð um tæpa 5 milljarða króna á föstu gengi í janúar 2021 og nemur viðsnúningur milli ára því um 6 milljörðum króna.

„Ástæðuna fyrir viðsnúningnum má ekki rekja til uppgjafar innflutningshliðarinnar, þvert á móti þá jókst innflutningur um 45 prósent milli ára á föstu gengi,“ segir Erna Björg. Ástæðan er kröftugur vöxtur í útflutningi.
„Alls jókst útflutningur um hvorki meira né minna en 63 prósent milli ára og hafa verðmæti vöruútflutnings aldrei verið jafn mikil ef frá er talinn fyrrnefndur flugvélasölumánuður.“

Útflutningur á áli bar höfuð og herðar yfir annan vöruútflutning. Verðmæti álútflutnings námu tæplega 33 milljörðum króna í janúar og jukust um 70 prósent milli ára. Verðmæti útflutnings sjávarafurða nam tæpum 25 milljörðum og jókst um 51 prósent milli ára. Þá var 97 prósenta aukning á verðmæti útflutnings afurða úr fiskeldi sem námu tæplega 6 milljörðum króna í janúar.
Hvað innflutningsvöxtinn varðar segir Erna Björg að hann endurspegli ekki aðeins mikinn kraft í innlendri eftirspurn heldur einnig verðhækkanir á hrávörum og neysluvörum. „Það er nokkuð ljóst að innfluttur verðbólguþrýstingur er og verður áfram verulegur.“