Þetta staðfestir Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Reynis, í samtali við Vísi, en dómurinn féll í Hæstarétti núna klukkan 14.
Rekja má málið til þess að Reynir fór fram á að þrenn ummæli sem Arnþrúður hafði látið falla í útvarpsþætti á útvarpsstöð sinni, Útvarpi Sögu, yrðu dæmd dauð og ómerk auk þess sem hann gerði kröfu um 1,5 milljón króna í miskabætur.
Reynir hafði fyrst betur í málinu fyrir héraðsdómi þar sem tvenn ummæli Arnþrúðar voru dæmd dauð og ómerk, auk þess sem Arnþrúði var gert að greiða honum 300 þúsund krónur í miskabætur.
Arnþrúður áfrýjaði dómnum til Landsréttar sem sneri dómi héraðsdóms við og taldi ekki um ærumeiðandi ummæli að ræða. Hæstiréttur féllst svo á málskotsbeiðni Reynis síðastliðið haust þar sem Reynir taldi dóm Landsréttar „bersýnilega rangan“.
Í ákvörðun Hæstaréttar þar sem sem málskotsbeiðni Reynis var samþykkt sagði að líta yrði svo á að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um þau atriði sem Reynir byggir á, einkum um mörk gildisdóma og staðhæfinga um staðreyndir. Því hafi beiðnin verið samþykkt.
Ummæli Arnþrúðar sem deilurnar snerust um voru:
- „Sjáðu bara eins og […] stjórnarformann Stundarinnar, Reyni Traustason. Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf og fjölskylduhamingju á á samviskunni? Bæði frá því sem ritstjóri DV og ritstjóri Stundarinnar og þá stjórnarformaður Stundarinnar.“
- „Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf á á á samviskunni þar sem hann hefur lagt heilu fjölskyldurnar og fólk í rúst út af athugasemdakerfum sem hann lét með lygafréttum sem að eru framleiddar?“
- „Hvað heldurðu að séu margir, sem eru búnir að gráta úr sér augun yfir lygunum í þeim?“
Uppfært klukkan 16:12
Dómurinn hefur nú verið birtur á vef Hæstaréttar. Í honum kemur meðal annars fram að umræða um mikilvæg þjóðfélagsmál njóti aukinnar verndar tjáningarfrelsis og að Arnþrúði verði játað rúmt frelsi til umræddrar tjáningar.
Það leiði af hinu rýmkaða tjáningarfrelsi í opinberri umræðu að einstaklingar sem hafi haslað sér völl á því sviði kunna að þurfa að þola harðari ummæli um sig en aðrir borgarar að því leyti sem umræðan telst eiga erindi við almenning.
Gagnrýni á störf fjölmiðlamanna kynnu þannig að vera hörð og óvægin án þess að hún sætti takmörkunum.
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að við heildstætt mat á ummælum Arnþrúðar væri til þess að líta í hvaða samhengi ummælin hefðu verið viðhöfð og hvernig þau hefðu verið sett fram. Taldi rétturinn að Arnþrúður hefði verið að fella gildisdóm um störf Reynis sem ekki skorti með öllu stoð í staðreyndum.
Þótt ummælin hefðu verið óvægin var ekki talið að Arnþrúður hefði farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns.