Skoðun

Þjóðar­leik­vang í Kapla­krika

Árni Stefán Guðjónsson skrifar

Nú um mundir er unnið að undirbúningi vegna þjóðarleikvangs fyrir knattspyrnu sem er fyrirhugaður í Laugardal í Reykjavík. Þessi nýi leikvangur er fagnaðarefni fyrir alla unnendur knattspyrnu og boðar nýja tíma fyrir alla landsmenn.

Það er þó eitt sem hefur aðeins gleymst í umræðunni en það er hvar landsliðið á að leika á meðan smíðinni stendur, þar sem völlurinn verður óleikhæfur í 3-5 ár á meðan unnið er að niðurrifi, flutningi veitumannvirkja og uppbyggingu.

Knattspyrnuáhugafólk þekkir þetta vel frá London þar sem Tottenham Hotspur spilaði heimaleiki sína um tíma á Wembley á meðan nýr leikvangur var byggður.

Vandi okkar Íslendinga er sá að hér er ekki fyrir neinum Wembley að skipta.

Ef við rennum snöggvast í gegnum þarfagreiningu fyrir slíkan völl þá þarf hann að hafa grasvöll, yfirbyggða stúku, góða tengda aðstöðu og möguleika á því að koma því sem næst 10.000 manns á völlinn.

Með þetta í huga er svarið augljóst: Kaplakriki.

Í Kaplakrika væri með einföldum hætti hægt að byggja yfir norðurstúkuna og smíða tengibyggingu milli norður- og suðurstúku með fleiri sætum þannig að hægt væri að taka á móti allt að 10.000 gestum. Í tengibygginguna væri þá einnig hægt að setja stoðrými eins og fjölmiðlaaðstöðu sem yrði svo umbreytt í einhverja íþróttatengda þjónustu í tímans rás.

Verkefnið myndi þá einnig kalla á að yfirborð vallarins yrði fært upp í blendingsgras (hybrid) með undirhita sambærilegt við velli á norður-Englandi og loks þyrfti að setja upp flóðljós til þess að gera völlinn leikhæfan á leikdögum sem eru yfir vetrartímann.

Þessar litlu og tiltölulega einföldu breytingar kosta líklegast innan við 10% af því sem nýr Laugardalsvöllur kostar og eru einfaldlega hluti af því verkefni. Þegar uppbyggingu á Laugardalsvelli er lokið og landsleikir færast þangað verður hægt að nýta hinn nýja Kaplakrika í landsleiki yngri landsliða, evrópuleiki og margt fleira.

Það liggur í hlutarins eðli að þetta þarf að vera klárt þegar niðurrif hefst á Laugardalsvelli og því ekki seinna vænna að hefja undirbúning en núna.

Hafnarfjarðarbær ætti án tafar að senda erindi inn til íþróttamálaráðherra og bjóða Kaplakrika fram sem staðgengil Laugardalsvallar á meðan á uppbyggingu hins síðarnefnda stendur og óska eftir því að stjórnvöld styðji við þessa umbreytingu vallarins með sambærilegum hætti og er fyrirhugaður í Reykjavík.

Höfundur er varabæjarfulltrúi Viðreisnar í Hafnarfirði.




Skoðun

Sjá meira


×