Klinkið

Einar Þorsteinsson líklegastur til að leiða Framsókn í Reykjavík

Ritstjórn Innherja skrifar
Einar Þorsteinsson og eiginkona hans, Milla Ósk Magnúsdóttir. Milla er aðstoðarmaður Willums Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra.
Einar Þorsteinsson og eiginkona hans, Milla Ósk Magnúsdóttir. Milla er aðstoðarmaður Willums Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra.

Uppstillingarnefnd Framsóknarflokksins stendur í ströngu um þessar mundir að raða upp á lista flokksins í borginni fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Líkt og fram hefur komið hefur Björgvin Páll Gústafsson, handboltamaður, gefið kost á sér í 1. - 2. sætið í Reykjavík og gefið út að hann vilji verða borgarstjóraefni flokksins. Það sem er ef til vill á færra vitorði er að Einar Þorsteinsson, fyrrverandi fjölmiðlamaður, liggur nú undir feldi og hefur sterklega verið orðaður við leiðtogasætið.

Þeir sem Innherji ræddi við og þekkja Framsóknarflokkinn út og inn telja líklegast og fullyrða raunar að Einari Þorsteinssyni verði teflt fram í fyrsta sæti. Landsliðsmaðurinn knái þurfi að sætta sig við annað sætið á listanum.

Formleg ákvörðun verður hins vegar ekki tekin fyrr í byrjun næsta mánaðar þegar uppstillingarnefndin hittist á fundi og raðar upp endanlegum lista flokksins fyrir það sem virðast ætla að verða fjörugustu borgarstjórnarkosningar um langt skeið.

Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.






×