Innlent

Kom á óvart að vera meinuð þátttaka í prófkjöri á síðustu stundu

Snorri Másson skrifar
Guðmundur Ingi Þóroddsson hefur verið formaður félags fanga um árabil og vildi nú í pólitíkina.
Guðmundur Ingi Þóroddsson hefur verið formaður félags fanga um árabil og vildi nú í pólitíkina.

Guðmundi Inga Þóroddssyni frambjóðanda í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík var meinuð þátttaka í prófkjörinu á síðustu stundu þar sem hann er enn á reynslulausn eftir fangelsisvist. Hann telur sig hins vegar kjörgengan samkvæmt lögum.

Flokksval flokksins í Reykjavík og Hafnarfirði stendur yfir um helgina og Guðmundur sóttist eftir þriðja sæti á lista flokksins í borginni.

Guðmundur Ingi Þóroddsson hefur verið í fangelsiskerfinu frá því skömmu eftir aldamót en hefur verið á reynslulausn frá 2020. Hún stendur til 2023. Umdeilt er hvort maður á reynslulausn teljist kjörgengur samkvæmt lögum; en sá skilningur er þó mögulegur.

Kjörstjórn Samfylkingarinnar tók framboð Guðmundar gilt í janúar.

„Það er náttúrulega skýrt að kjörgengið hafði verið staðfest hjá kjörstjórn. Þeir voru búnir að staðfesta og búnir að kanna það þannig að þetta kom vissulega á óvart. Þeir eru allt í einu að fetta fingur út í þetta núna bara svona degi fyrir kosningar eða tveimur,“ segir Guðmundur Ingi í samtali við fréttastofu.

Unnið mjög hratt

Kjörstjórninni bárust ábendingar um að vafi léki á kjörgengi Guðmundar. Í tilkynningu frá kjörstjórn segir að ábendingarnar hafi þótt gefa tilefni til nánari athugunar og óskaði  kjörstjórnin því eftir gögnum frá frambjóðanda sem gætu sýnt fram á kjörgengi hans.

Frambjóðandinn gat að sögn kjörstjórnar ekki framvísað gögnum sem gátu með óyggjandi hætti sýnt fram á kjörgengi. Af þeim sökum var kjörstjórn ekki unnt að líta fram hjá því að viðkomandi uppfyllti ekki skilyrði fyrir þátttöku í flokksvali.

Athugunin hófst nú á miðvikudaginn, þegar prófkjörið átti að hefjast á laugardegi. Niðurstaðan, sem fékkst í gær, var að framboðið væri ógilt þar sem afplánun væri ekki að fullu lokið. Guðmundur kærði þá niðurstöðu strax en úrskurðarnefnd staðfesti hana. Þar með er það endanlegt; Guðmundur fær ekki að bjóða sig fram.

„Þetta eru mikil vonbrigði og ég, bæði ég og mínir lögfræðingar, erum mjög ósammála þessari niðurstöðu, sérstaklega vegna þess að Samfylkingin hefur ekki heimild til að ógilda framboðið eða ákvarða um kjörgengi manna. En þetta er bara samt niðurstaðan og því verða sennilega ekki breytt úr þessu,“ segir Guðmundur.

Ástæða þess að kjörstjórnin ógilti framboð Guðmundar var að því er sagði í ákvörðuninni sú að hann uppfyllti ekki skilyrði kosningalaga um kjörgengi.

Eftirfarandi skilyrði er hann ekki talinn hafa uppfyllt:

  • Kjörgengur í sveitarstjórn er hver sá sem á kosningarrétt í sveitarfélagi skv. 4. gr. og hefur óflekkað mannorð.
  • Enginn telst hafa óflekkað mannorð sem hlotið hefur dóm fyrir refsivert brot og refsing er óskilorðsbundið fangelsi, frá þeim degi þegar dómur er upp kveðinn og þar til afplánun er að fullu lokið.

Fann fyrir titringi

Að baki ákvörðuninni eru flókin lagaleg álitamál um kjörgengi og óflekkað mannorð, sem fjallað var töluvert um á Alþingi í fyrra. Hér að neðan í viðhengi er að finna öll gögn.

„Að gera þetta á nokkrum klukkustundum? Það er ómögulegt,“ segir Guðmundur.

Fluttar hafa verið fréttir af dugnaði Guðmundar og hans fólks við að afla sér stuðnings.

„Ég tel mig vera með mjög gott fylgi í flokknum og nýliðun gekk mjög vel, það er alveg á hreinu. Auðvitað fann ég fyrir miklum titringi undanfarið,“ segir Guðmundur.

Hart er deilt um þessa ákvörðun innan Samfylkingarinnar, en þetta er annað skipti sem Guðmundi er meinuð þátttaka í prófkjöri.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir

Sjálfstæðisflokkurinn missir tvo borgarfulltrúa samkvæmt könnun Maskínu

Meirihlutaflokkarnir myndu bæta við sig tveimur borgarfulltrúum ef kosið yrði til borgarstjórnar nú samkvæmt nýrri könnun Maskínu fyrir fréttastofuna. Sjálfstæðisflokkurinn tapar miklu fylgi frá síðustu kosningum, Píratar sækja í sig veðrið og Framsóknarflokkurinn næði inn manni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×