Sport

Ofurskálin ekki síður matarviðburður ársins: „Þetta er bara algjör bilun“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Fólk leggur ýmislegt á sig fyrir kvöldið
Fólk leggur ýmislegt á sig fyrir kvöldið

Fjöldi Íslendinga situr límdur yfir Ofurskálinni svonefndu í kvöld, þar sem úrslitin ráðast í NFL-deildinni bandarísku. Leikar hefjast seint í kvöld og fyrir mörgum liggur að vaka fram á morgun. Henry Birgir Gunnarsson, íþróttafréttamaður okkar, fór yfir málin í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Þetta er náttúrulega bara árshátíð NFL samfélagsins hér í kvöld og bara hjá þjóðinni, þetta er ekki bara stór viðburður heldur líka mikill matarviðburður,“ segir Henry en á samfélagsmiðlum má sjá fólk leggja mikla vinnu í mat fyrir stóra kvöldið.

Undir myllumerkinu #NFLisland má sjá að margir hverjir eru orðnir spenntir og er óhætt að segja að kjúklingur sé matur kvöldsins. Einn gekk meðal annars svo langt að fá vængi frá Vængjavagninum senda með flugvél frá Reykjavík til Akureyrar.

Þá hefur annar pantað sér KFC með flugi til Egilsstaða. 

„Það hefur verið yndislegt að fylgjast með því á síðustu árum, metnaðurinn sem fólk er farið að setja í þetta. Menn munu sjá það á Twitter í kvöld hverja myndina af fætur annarri af fólki sem er kannski búið að vera viku að undirbúa sig,“ segir Henry.

„Þetta gengur alltaf lengra og lengra, það er matur fyrir kannski 30 manns og þeir eru þrír. Þetta er bara algjör bilun og meirihluti af þessu fólki er ekkert að fara í vinnu á morgun, þetta á að vera alþjóðlegt frí daginn eftir Superbowl,“ segir hann enn fremur.

Óhætt er að segja að Ofurskálin sé einn stærsti íþrótta- og sjónvarpsviðburður ársins en í ár mætir lið Los Angeles Rams liði Cincinnati Bengals

„Þetta eru tvö lið sem munu skora mikið, þetta ætti að vera mjög skemmtilegur leikur. Hálfleikssýningin er af dýrari gerðinni, Snoop Dogg, Dr. Dre, Eminem og fleiri og fleiri,“ segir Henry.

Þrátt fyrir að leikurinn hefjist ekki fyrr en klukkan hálf tólf að íslenskum tíma eru margir byrjaðir að undirbúa sig, líkt og sjá má hér fyrir neðan. 


Tengdar fréttir

Dagskráin í dag: Sófasunnudagur sem endar á Ofurskál

Sprotrásir Stöðvar 2 bjóða upp á sannkallaðan sófasunnudag í dag, en alls er 21 bein útsending framundan. Að sjálfsögðu geymum við það besta þangað til síðast, en leikurinn um sjálfa Ofurskálina slær botninn í dagskrá dagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×