Þetta segir Þórður Gunnarsson hagfræðingur í nýjasta hlaðvarpsþætti Þjóðmála þar sem meðal annars er rætt um þann alvarlega fjárhagsvanda sem Reykjavíkurborg er í. Þórður hefur gefið kost á sér í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi kosningar. Hann segir að A-hluti Reykjavíkurborgar sé í dag rekinn með 7 til 12 prósenta halla á ársgrundvelli. Ef stefnan sé sú að fara í þá sókn sem borgin hefur boðað – og mögulega sé þörf á – þá þurfi að laga reksturinn til muna.
Þá er í þættinum fjallað nokkuð um nauðsynlega innviðauppbyggingu í Reykjavík, meðal annars lagningu borgarlínu. Þórður segir að allt bendi til þess að borgarlínan verði lögð og hún verði að mestu fjármögnuð af ríkinu. Ekki sé hins vegar hægt að þvinga almenning til að nýta aðeins einn samgöngumáta heldur þurfi að byggja upp fjölbreytta valkosti í þeim efnum.
„Það er ekki hægt að byggja upp nýjar akreinar við allar stofnæðar. Það er ekki viturlegt og það er ekki pláss fyrir þær,“ segir Þórður en minnir á að mikilvægt sé að virða þann samgöngusáttamála sem gerður hefur verið og hann feli einnig í sér uppbyggingu á stærri gatnamótum í borginni.
Konráð Guðjónsson, aðahagfræðingur Stefnis sjóða og fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, sem einnig var gestur í þættinum, tekur undir mikilvægi þess að ýtt sé undir fjölbreytta samgöngumáta innan borgarinnar. Ljóst sé að töluverð íbúafjölgun muni eiga sér stað næstu tvo áratugi og því þurfi að hugsa skipulagsmál, þar með talið samgöngumál, með öðrum hætti en gert hefur verið hingað til.
Það er ekki hægt að byggja upp nýjar akreinar við allar stofnæðar. Það er ekki viturlegt og það er ekki pláss fyrir þær.
Þá segir Konráð að þétting byggðar í austurhluta borgarinnar muni einnig gera þau hverfi betri, auka þjónustu og fjölga möguleikum fólks á að starfa í hverfinu sínu.
Í þættinum er einnig rætt um það hvaða efnahagslegu áhrif það hefur ef skipulagsmál eru í ólestri, hvaða þróun mun eiga sér stað í atvinnumálum höfuðborgarsvæðisins og mögulega á suðvesturhorni landsins. Þá er jafnframt fjallað um stöðu mála í hagkerfinu, nýlega vaxtahækkun Seðlabankans og áhrif hennar sem og stuðningsaðgerðir hins opinbera í faraldrinum og hvaða áhrif það mun hafa þegar af þeim verður látið.