Hin rússneska Valieva er mjög sigurstrangleg í keppninni nú þegar ljóst er að hún má keppa þrátt fyrir að hafa greinst með bannað, árangursaukandi hjartalyf í lyfjaprófi sem framkvæmt var á rússneska meistaramótinu í desember.
Framkvæmdastjórn alþjóða ólympíunefndarinnar segist verða að fara að lögum og því sé ekki annað í stöðunni en að una úrskurði alþjóða íþróttadómstólsins, CAS, um að Valieva megi keppa.
Ferlinu við að meðferð sýnisins sem tekið var úr Valievu í desember er ekki lokið, og aðeins þegar því lýkur er hægt að kveða endanlega upp úr um það hvort að hún hafi brotið reglur alþjóða lyfjaeftirlitsins og hljóti refsingu.
Hleypa 25 keppendum áfram
Úr því að mál Valievu er þannig enn í lausu lofti hefur eins og fyrr segir verið ákveðið að engin verðlaunaafhending verði haldin fari svo að Valieva endi í einu af efstu þremur sætunum. Það þýðir að að minnsta kosti tveir keppendur sem ætla má að hafi alls ekki óhreint mjöl í pokahorninu, fá enga verðlaunaafhendingu á sjálfum Vetrarólympíuleikunum.
Auk þess munu nú 25 keppendur komast áfram eftir stutta prógramið í keppninni á morgun, í frjálsa prógramið sem er á fimmtudaginn, í stað 24 keppenda, ef Valieva verður í þeim hópi.
Alþjóða ólympíunefndin ætlar að halda verðlaunaathöfn síðar, þegar mál Valievu hefur verið til lykta leitt.