Erlent

Hafa notað lífsýni þolenda til að bendla þá við aðra glæpi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ekki er vitað til þess að vinnubrögðum lögreglunnar í San Francisco hafi verið beitt annars staðar í Bandaríkjunum.
Ekki er vitað til þess að vinnubrögðum lögreglunnar í San Francisco hafi verið beitt annars staðar í Bandaríkjunum.

Upp hefur komist að lögreglan í San Francisco hefur verið að nota erfðaupplýsingar þolenda kynferðisbrota til að tengja þá við aðra glæpi. Yfirsaksóknari borgarinnar segir lögreglu fara með þolendur eins og sönnunargögn og vill banna athæfið.

Aðstoðarmenn yfirsaksóknarans, Chesa Boudin, segja embætti' ekki hafa vitað af vinnuaðferðum lögreglu fyrr en lögregla greindi frá því í síðustu viku að kona hefði verið handtekinn í tengslum við glæp á grundvelli erfðaupplýsinga sem var aflað eftir að hún tilkynnti að sér hefði verið nauðgað.

Lífsýni var tekið hjá konunni til að bera kennsl á gerandann.

Í kjölfarið kom í ljós að þetta er langt í frá eina tilfellið þar sem lögregla hefur notað erfðaupplýsingar sem safnað var við rannsókn kynferðisbrotamáls til að máta þolandann við aðra glæpi. Raunar kann að vera að þetta hafi tíðkast allt frá 2015.

William Scott, yfirlögreglustjóri San Francisco, hefur sagt að málið verði kannað; ef rétt reynist þá muni hann beita sér til að taka fyrir aðferðirnar. „Við megum aldrei skapa neikvæða hvata fyrir fórnarlömb glæpa að gefa sig fram við lögreglu,“ sagði hann.

Forsvarsmenn baráttusamtaka þolenda ofbeldis segja óforsvaranlegt að sönnunargögn sem safnað er til að bera kennsl á gerendur séu notuð gegn þolendum.

„Þolendur sem gangast undir rannsókn í kjölfar nauðgunar hafa gefið samþykki sitt fyrir söfnun lífsýnis í mjög afmörkuðum tilgangi: til að stuðla að því að nauðgarinn náist,“ segir Camille Cooper, varaforseti stefnumótunar hjá RAINN (Rape, Abuse & Incest National Network).

New York Times greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×