Erlent

Hafi verið að verja sjálfan sig þegar hann skaut níu ára stelpu til bana

Eiður Þór Árnason skrifar
Arlene Alvarez lést á þriðjudag.
Arlene Alvarez lést á þriðjudag. AP/Fjölskylda Arlene Alvarez

Verjendur karlmanns sem er sakaður um að hafa skotið níu ára stúlku segja hann einungis hafa verið að verja sjálfan þegar hann skaut í áttina að ræningja sem ógnaði honum með byssu.

Í réttarhöldum á fimmtudag fóru verjendur Tony Earls fram á að honum yrði sleppt úr haldi á grundvelli þess að hann hafi ekki ætlað að skaða hina níu ára Arlene Alvarez.

„Skjólstæðingur okkar á rétt á því að verja sig,“ sagði Brennen Dunn, einn verjenda Earls í dómssal.

Dómari féllst ekki á að hann yrði leystur úr haldi eða trygging hans lækkuð. Hann mun því áfram dvelja í Harris County fangelsinu.

Armando Alvarez og Gwen Alvarez, foreldrar Arlene.Ap/Juan A. Lozano

Að sögn lögreglu sátu Earls og eiginkona hans í bíl sínum þegar þau voru rænd við hraðbanka í suðausturhluta Houston um klukkan 21:45 á mánudag. Þá hafi Earls stigið út úr bifreiðinni og skotið í átt að hinum grunaða.

Að sögn saksóknara tók ræninginn tuttugu dala seðil og bíllykla ófrjálsri hendi sem hann missti síðar á jörðina. Arlene sat í aftursæti pallbíls þegar hún var skotin í höfuðið. Hún lést næsta dag á spítala.

Saksóknari fullyrðir að Earls hafi skotið fjórum sinnum í átt að ræningjanum og svo skotið pallbílinn tvisvar. Að sögn lögreglu taldi Earls að maðurinn hafi mögulega klifrað um borð í bílinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×