Upphaflega átti lyftan að komast í gagnið í desember 2018 en ýmsar ástæður hafa komið í veg fyrir að hægt hafi verið að taka hana í notkun.
Gríðarlegur fjöldi er á Akureyri vegna skólafría á höfuðborgarsvæðinu og skíðasvæðið við Hlíðarfjall er meira og minna stappað af skíðafólki. Það var því tilkynnt í gær að gangsetja ætti lyftuna í fyrsta skipti.

Lyftan var þó ekki samvinnuþýð til að byrja með í dag. Rafmagnstruflanir komu í veg fyrir að hún gæti farið að stað á auglýstum tíma. Allt blessaðist þó á endanum og hægt var að gangsetja vélina skömmu á eftir áætlun eftir að rafvirki var sendur með hraði upp á topp fjallsins.
Ungir Reykvíkingar réttir menn á réttum tíma
Það voru ungir Reykvíkingar í skólafríi sem fóru fyrstu ferðina.
„Hún var frábær,“ sagði Dagur Hinrikisson þrettán ára skíðakappi sem fékk ásamt félaga sínum Skugga Jóhannssyni, tólf ára, þann óvænta heiður að vígja lyftuna. Réttir menn á réttum tíma.
„Geggjað að vera fyrstir, svo var útsýnið alveg geggjað þarna uppi og þessi brekka var góð,“ sagði Skuggi hæstánægður en þeir félagar voru eins og svo margir höfuðborgarbúar að njóta veðurblíðunnar á Akureyri í vetrarfríum skólanna.
Fjallað var um opnun skíðalyftunnar í kvöldréttum Stöðvar 2 í kvöld eins og sjá í myndbandinu hér að neðan.
Forsvarsmenn svæðisins eru einnig ánægðir með geta boðið gestum að nýta lyftuna eftir langa bið. Það fór þó örlítið um þá þegar lyftan neitaði að fara af stað á auglýstum opnunartíma. Vinnueftirlitið tók lyftuna út í gær og þá gekk hún eins og í sögu.

„Allt í gúddí þá en á ögurstundu, tíu mínútur í opnunartíma, þá klikkaði eitt neyðarstopp og við ræstum út rafvirkja sem kom,“ sagði Óskar Ingólfsson, svæðisöryggisfulltrúi Hlíðarfjalls. Rafvirkinn var fluttur með hraði upp á topp með snjósleða til að laga það sem fór úrskeiðis. Innan tíðar var lyftan farin að ganga.
Sem fyrr segir hefur dregist töluvert á langinn að opna lyftuna og það var því óneitanlega kaldhæðni örlaganna að lyftan skyldi hóta því að fara ekki af stað á auglýstum opnunartíma.
Hún ætlaði að vera með pínu vesen í restina?
„Já, bara svona rétt til að minna á sig held ég hljóti að vera. Þetta hlýtur að vera komið.“
Opnun lyftunnar gæti varla komið á betri tíma enda Hlíðarfjall meira og finna fullt af snjóþyrstum skíða- og brettaköppum. Aðstæður í dag gerast varla betri.
„Þetta er búið að vera mjög flott, sólin er búin að vera hátt á lofti, mikið frost hægur vindur og fullt af fólki. Það slagar hátt í þrjú þúsund manns,“ sagði Óskar.