Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir í samtali við fréttastofu að búið sé að keyra upp varafla á þeim stöðum þar sem rafmagn fór út. Hrútatungalína 1 leysti út tvisvar í kvöld sem olli rafmagnsleysi á Snæfellsnesi og í Borgarfjarðarsveit en línan komst aftur í rekstur skömmu síðar.
Glerárskógalína leysti síðan út sem olli rafmagnsleysi á Vestfjörðum en varaflastöð var keyrð upp í Bolungarvík skömmu síðar. Klukkan níu leysti síðan Laxársvatnslína 1 út sem olli rafmagnsleysi á tímabili á Hrútafirði en rafmagn er nú komið aftur á. Í Ólafsvík kom upp bilun í tengivirki sem er nú unnið að því að laga.
Rafmagn flöktir á höfuðborgarsvæðinu
Á höfuðborgarsvæðinu hefur fólk einnig orðið vart við truflanir á rafmagni en þó hefur ekki orðið rafmagnslaust.
„Það hefur ekki verið rafmagnslaust hér en það er búið að vera svolítið blikk á ljósum og blikkið á höfuðborgarsvæðinu var út af því að við misstum Sultartangalínu 3 og Búrfellslínu 3,“ segir Steinunn en við það kom spennuhögg á kerfið sem olli blikkinu.
„Við höfum líka heyrt talað um að fólk hafi verið að upplifa blikk í kringum Akranes og Vestamannaeyjar og það er sama ástæða þar, við misstum fyrr í kvöld út línu sem heitir Vatnshamralína 1, sem hafði áhrif á Akranesi. Í Vestmannaeyjum var það Hvolsvallarlína 1 sem að olli blikkinu,“ segir Steinunn.
Alls eru nú þrjár línur úti, það eru Sultartangalína, Hvolsvallarlína og Þorlákshafnarlína. Aðspurð um hvort höfuðborgarbúar eða aðrir á landinu megi búast við áframhaldandi röskunum segir Steinunn það erfitt að segja.
„Við vitum aldrei hverju við eigum von á en við erum bara vel undirbúin. Við erum vel mönnuð, búin að manna tengivirki hérna í kringum höfuðborgina til að bregðast við ef eitthvað væri, og það eru aukavaktir í stjórnstöðinni hjá okkur og við erum bara tilbúin til að takast á við þau verkefni sem að kvöldið og nóttin býður okkur upp á,“ segir Steinunn.