Innlent

1.099 greindust smitaðir í gær

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Dregið hefur verulega úr PCR sýnatökum og greindust því flestir á hraðprófi. 
Dregið hefur verulega úr PCR sýnatökum og greindust því flestir á hraðprófi.  Vísir/Vilhelm

Alls greindust tæplega ellefu hundruð manns smitaðir af kórónuveirunni innanlands í gær að því er kemur fram á covid.is en 1.023 greindust við hraðpróf og 76 við PCR-próf. Tvö ár eru liðin frá því að fyrsta Covid smitið greindist hér á landi. 

Í heildina voru tekin 1.976 sýni með hraðprófum og 338 PCR-sýni. Tveggja vikna nýgengi smita hækkar frá því fyrir helgi og er nú 9.773. Upplýsingar um fjölda smitaðra á landamærunum hefur ekki verið birtur á vef covid.is. 

Inniliggjandi á spítala, annað hvort í Reykjavík eða á Akureyri, eru nú 63 og þar af eru þrír á gjörgæslu en á Landspítala eru 53 sjúklingar inniliggjandi, þar af tveir á gjörgæslu og báðir í öndunarvél.

Karlmaður á níræðisaldri með Covid-19 lést á Landspítala á laugardaginn og hafa því 62 látist frá upphafi faraldursins.

Fjöldi smitaðra í gær er töluvert lægri en síðustu daga en öllum takmörkunum vegna Covid var aflétt aðfaranótt föstudags, og þar með reglum um einangrun. Þá hefur verulega dregið úr PCR sýnatökum sem skýrir að hluta lágan heildarfjölda smitaðra.

Frá upphafi faraldursins hafa 129.844 greinst smitaðir af kórónuveirunni sem samsvarar um 34,5 prósent íbúa. Í dag eru tvö ár liðin frá því að fyrsta Covid smitið greindist hér á landi og frá því að fyrsti Covid sjúklingurinn var lagður inn á Landspítala. 


Tengdar fréttir

1.587 greindust innanlands í gær

Alls greindust 1.587 einstaklingar með Covid-19 innanlands í gær. Þá greindust 155 með landamærasmit. Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Brjálaðri af­léttinga­nótt en í fyrra

Í gærkvöldi gátu skemmtanaþyrstir Íslendingar loksins djammað almennilega án nokkurra takmarkana. Aðfaranótt fimmtudags voru allar sóttvarnatakmarkanir felldar úr gildi og gátu skemmtistaðir því haft opið langt inn í aðfaranótt laugardagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×