Innherji

Vilja vita hvernig landlæknir ætlar sér að bregðast við ólögmætu útboði

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Alma Möller landlæknir og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Alma Möller landlæknir og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Heilbrigðisráðuneytið hefur ekki úrskurð um ólögmætt útboð embætti landlæknis undir höndum en leggur áherslu á að vel sé farið með opinbert fé og að aðilum á samkeppnismarkaði sé tryggð jöfn staða.

Í svari frá ráðuneytinu segir að fulltrúar þess muni ræða um niðurstöðuna við embætti landlæknis og afla upplýsinga um það hvernig skuli bregðast við honum. Um er að ræða innkaup embættisins á yfir milljarð króna yfir fjögurra ára tímabil, án útboðs.

Hvorki heilbrigðisráðuneytið né ráðherra málaflokksins eru aðili að máli því sem Kara Connect höfðaði gegn embætti landlæknis þar sem úrskurðað var um að innkaup landlæknis af Origo hf. er lúta að þróun á Heklu heilbrigðisneti, gerð og þróun Heilsuveru og þróun fjarfundarlausnar til notkunar á heilbrigðissviði, hafi verið ólögmæt og í andstöðu við lög um opinber innkaup.

Ráðuneytið mun ræða um úrskurðinn við embætti landlæknis og afla upplýsinga um það hvernig embættið hyggist bregðast við honum

„Hvorki ráðuneytið né ráðherra hafa úrskurðinn undir höndum. Aftur á móti er það skýr afstaða ráðherra og ráðuneytisins nú sem endranær að ávallt skuli haga þessum málum í samræmi við lög. Ávallt skal áhersla lögð á að fara vel með opinbert fé og jafnframt ber að tryggja að aðilum á samkeppnismarkaði sé tryggð jöfn staða,” segir í svari frá heilbrigðisráðuneytinu við fyrirspurn Innherja vegna málsins.

Heilsuvera er líkt og landsmönnum er kunnugt um hugbúnaður þar sem almenningur getur sótt heilsutengdar upplýsingar í gegnum Heklu heilbrigðisnet. Hekla er lokað, rafrænt samskiptanet til sendinga á heilbrigðisgögnum á milli aðila á heilbrigðissviða.

Í úrskurðinum er embætti landlæknis gert að bjóða út öll slík innkaup auk þess sem embættinu er gert að standa skil á 9 milljón króna stjórnvaldssekt auk 2 milljóna króna málskostnaði til kæranda. Þar kemur einnig fram að um er að ræða innkaup á yfir milljarð króna yfir fjögurra ára tímabil, án útboðs.

„Ráðuneytið mun ræða um úrskurðinn við embætti landlæknis og afla upplýsinga um það hvernig embættið hyggist bregðast við honum,” segir enn fremur í svari frá heilbrigðisráðuneytinu.

Fulltrúi Landlæknisembættisins hefur áður sagt málið umfangsmikið og eiga sér langan aðdraganda, líkt og úrskurðurinn beri með sér. Embættið hefur undanfarna daga farið ítarlega yfir niðurstöðuna og hyggjast að því loknu tjá sig frekar um málið.

Segir lágmarkskröfu að landlæknisembættið fari að landslögum

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir stofnandi Kara Connect sem kærði málið upprunalega til kærunefndar útboðsmála, sagði í samtali við Innherja fyrir helgi að fyrirtæki sitt Kara Connect, sem er almennur hugbúnaður fyrir sérfræðinga meðal annars í heilbrigðisgeiranum, og önnur sambærileg íslensk fyrirtæki vera sett í vonlausa stöðu.

„Þegar landlæknir fylgir ekki landslögum, hvað varðar útboð verkefna í heilbrigðismálum. Landlæknir setur reglur og umgjörð fyrir okkur sem störfum á þessu sviði og það er því lágmarkskrafa að embættið fari sjálft að landslögum.”

Ríkið á ekki að virða eðlilega samkeppni að vettugi

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra nýsköpunarmála, hefur einnig tjáð sig um málið. Hún segir það góða þróun að sprotafyrirtæki séu að koma fram með hugbúnaðarlausnir til aukinnar skilvirkni og betri þjónustu, meðal annars til að minnka sívaxandi kostnað heilbrigðisþjónustu.

 „Það er þróun sem við viljum halda áfram og ríkið á ekki að standa í vegi fyrir því eða minnka þar áhugann sökum þess að lögum er ekki fylgt og eðlileg samkeppni virt að vettugi,” segir Áslaug Arna.


Tengdar fréttir

Íslensk fyrirtæki sett í vonlausa stöðu þegar landlæknir fylgir ekki lögum

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi Kara Connect sem kærði landlækni fyrir að brjóta gegn lögum um opinber innkaup og hafði betur segir yfirvöld þurfa að svara því hvernig framtíðarfyrirkomulag í heilsutækni eigi að líta út. Ráðamenn hafi tjáð sig með skýrum hætti en lítið hafi verið að gert. Landlæknir segir að farið verði ítarlega yfir úrskurðinn áður en embættið tjáir sig frekar um málið.

Brot landlæknis á lögum bitni á mikilvægri samkeppni

„Það er alltaf alvarlegt þegar lögum er ekki fylgt. Þegar um er að ræða lög um opinber innkaup bitnar það á mikilvægri samkeppni," segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir nýsköpunarráðherra um nýfallinn úrskurð kærunefndar um útboðsmál þar sem Kara Connect kærði landlækni fyrir að brjóta gegn lögum um opinber innkaup og hafði betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×