Íslenski boltinn

KR vann gegn Leikni í átta marka leik | Selfyssingar höfðu betur í botnslagnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Atli Sigurjónsson skoraði þrennu fyrir KR í kvöld.
Atli Sigurjónsson skoraði þrennu fyrir KR í kvöld. VÍSIR/DANÍEL

Tveir leikir fóru fram í A-deild karla í Lengjubikarnum í kvöld. KR-ingar unnu 5-3 útisigur gegn Leikni og Selfyssingar unnu 2-0 sigur gegn Grindvíkingum.

Atli Sigurjónsson kom KR-ingum yfir gegn Leikni eftir tuttugu mínútna leik, en það reyndist eina mark fyrri hálfleiksins.

Mikkel Dahl jafnaði metin fyrir heimamenn strax í upphafi síðari hálfleiks áður en Atli Sigurjónsson kom KR-ingum yfir á nýjan leik á 49. mínútu.

Aðeins tveimur mínútum síðar var staðan orðin 4-1 eftir tvö snögg mörk frá Kristjáni Flóka Finnbogasyni og Stefáni Árna Geirssyni.

Mikkel Dahl minnkaði muninn í 4-2 á 63. mínútu og Patryk Hryniewicki skoraði þriðja mark Leiknis tíu mínútum síðar.

Nær komust Leiknismenn þó ekki og Atli Sigurjónsson gulltryggði 5-3 sigur KR stuttu fyrir leikslok og fullkomnaði um leið þrennu sína.

KR og Leiknir sitja í efstu tveimur sætum riðils þrjú, KR á toppnum með tíu stig og Leiknir sæti neðar með sjö.

Þá vann Selfoss góðan 2-0 sigur gegn Grindvíkingum í botnslag fjórða riðils. Valdimar Jóhannsson kom Selfyssingum yfir stuttu fyrir hálfleik og Hrvoje Tokic tryggði sigurinn á lokamínútu leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×