Íslenski boltinn

Elín Metta segir rangt að hún sé hætt

Sindri Sverrisson skrifar
Elín Metta Jensen, til hægri á mynd, með hönd á Íslandsmeistarabikarnum sem hún landaði með Val á síðustu leiktíð.
Elín Metta Jensen, til hægri á mynd, með hönd á Íslandsmeistarabikarnum sem hún landaði með Val á síðustu leiktíð. vísir/hulda margrét

Landsliðskonan Elín Metta Jensen segir ekki rétt að hún sé hætt í fótbolta. Hún vill að öðru leyti ekki tjá sig um sögusagnir þess efnis að svo stöddu.

Í nýjasta hlaðvarpsþætti Dr. Football var það fullyrt að Elín Metta hefði lagt skóna á hilluna samkvæmt heimildum þáttarins. 

„Stutta svarið er nei, ég er ekki hætt í fótbolta,“ sagði Elín Metta þegar Vísir bar þetta undir hana en vildi ekki svara frekari spurningum.

Elín Metta, sem samhliða fótboltanum hefur verið í læknisnámi, er samningsbundin Val út þessa leiktíð.

Hún hefur verið einn albesti leikmaður efstu deildar hér á landi, Bestu deildarinnar eins og hún heitir nú, og er í 10. sæti yfir flest mörk skoruð frá upphafi í deildinni, með 125 mörk í 167 leikjum.

Meiddist þegar Valur varð Íslandsmeistari

Elín Metta, sem er nýorðin 27 ára gömul, er jafnframt í 10. sæti yfir flest mörk skoruð fyrir íslenska landsliðið en hún hefur gert 16 mörk í 58 A-landsleikjum. Íslenska landsliðið leikur í lokakeppni EM í sumar og á fyrir höndum mikilvæga leiki í undankeppni HM í apríl.

Elín Metta kom inn á í þremur leikjum í Reykjavíkurmótinu nú í vetur en var ekki með Val gegn Þrótti á þriðjudaginn í fyrsta leik í Lengjubikarnum.

Síðustu leiktíð hjá Elínu Mettu lauk fyrr en ella vegna meiðsla, eða 25. ágúst, þegar Valur tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á Tindastóli þar sem hún skoraði eitt markanna. Í þeim leik meiddist hún í hné, eftir að hafa glímt við kálfameiðsli um tíma skömmu áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×