Costco sleppur við að greiða vangoldin félagsgjöld til Samtaka atvinnulífsins (SA) þar sem ekki þótti ljóst að SA ætti aðild að málinu, þ.e. að SVÞ hefði umboð til að sækja málið fyrir hönd SA.
SVÞ höfðaði mál gegn Costco til heimtu skuldar vegna vangoldinna árgjalda bæði SVÞ og SA. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst að fullu á kröfu SVÞ, fyrir hönd beggja aðila, þess efnis að Costco skildi greiða 7,3 milljónir króna í vangoldin gjöld.
Landsréttur vísaði í dómi sínum til þess að málið hefði aðeins verið höfðað í nafni SVÞ og SA ætti ekki aðild að málinu. SA ætti í reynd stærstan hluta kröfufjárhæðar málsins. Ekki yrði ráðið af gögnum málsins að SA hefði veitt SVÞ umboð til að höfða dómsmál í þeirra nafni. Var Costco því sýknað af kröfu SVÞ á grundvelli aðildarskorts.
Með vísan til framburðar vitna fyrir dómi var ekki fallist á rök að Costco á Íslandi, sem væri hluti af alþjóðlegu stórfyrirtæki, gæti borið fyrir sig vanþekkingu um skuldbindingar sem hann tók á sig með aðild að SVÞ og SA. Yrði Costco á Íslandi því látið bera hallann af því og dæmdur til að greiða 2,8 milljónir í vangoldin félagsgjöld auk vaxta frá árinu 2018.