Erlent

Forsætisráðherra Ástralíu segir stríðið í Úkraínu ögurstundu fyrir Kínverja

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kínverjar vilja ekki tala um „innrás“.
Kínverjar vilja ekki tala um „innrás“. epa/Chamila Karunarathne

Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, hefur varið afstöðu þarlendra stjórnvalda til átakanna í Úkraínu. Hann segir þau munu tala fyrir friðarviðræðum. Samkvæmt New York Times neitar hann að kalla aðgerðir Rússa „innrás“.

Wang hefur ítrekað þá afstöðu Kínverja að þeir virði fullveldi allra ríkja en að Úkraínumenn og bandamenn þeirra þurfi að skilja og koma til móts við öryggissjónarmið Rússa.

Þá segir hann samband Kína og Rússlands það mikilvægasta í heimi til að stuðla að heimsfriði, stöðugleika og framþróun. Bæði ríki hefðu skuldbundið sig til að koma í veg fyrir nýtt kalt stríð og forðast að kynda undir hugmyndafræðileg átök.

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, hefur varað við ógn nýrrar bylgju alræðishyggju við skipan heimsmálanna og sakað Kínverja um að veita Rússum efnahagslegar bjargir á sama tíma og landið sæti refsiaðgerðum vesturveldanna.

Hann segir stríðið í Úkraínu ögurstundu fyrir kínverska ráðamenn, sem verði að sýna fram á að ítrekaðar yfirlýsingar þeirra um að þeir virði fullveldi annarra ríkja séu annað og meira en orðagjálfur. 

Ekkert ríki væri í betri stöðu til að hafa áhrif á hegðun rússneskra stjórnvalda.

Xi Jinping, leiðtogi Kína, og Vladimir Pútín Rússlandsforseti hittust fyrir Ólympíuleikana í Pekíng og lýstu því yfir að vinátta ríkjanna væri „takmarkalaus“. Í kjölfar afléttu Kínverjar takmörkunum á hveitiinnflutningi frá Rússlandi.

Kínversk stjórnvöld hafa þó þverneitað fregnum þess efnis að þau hafi vitað af innrásinni og sagt Rússum að bíða með hana þar til eftir leikana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×