„Þetta er nánast sætara í annað skiptið, þegar þetta er svona ótrúlega spennandi. Bæði lið voru bara geggjuð í dag,“ sagði Einar.
„Þetta er frábært og það eru tveir titlar í viðbót sem við ætlum að taka á þessu tímabili. Svo bara vinna og vinna aftur, það er markmiðið þegar þú ert í Val.“
Valur var tveimur mörkum undir í hálfleik, 15-17, en sneri dæminu sér í vil í seinni hálfleik.
„Mér fannst þeir ótrúlega flottir í sókn, nýttu færin sín og við áttum í basli. Það sem bjargaði okkur var þessi seinni bylgja og hvað við vorum góðir í sókn. En við náðum aðeins að þétta í seinni hálfleik þegar við föttuðum aðeins hvað þeir voru að gera,“ sagði Einar.
Valsmenn spila gríðarlega hraðan handbolta og keyra í bakið á andstæðingnum við hvert tækifæri.
„Þetta er nákvæmlega það sem Snorri [Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals] kennir okkur. Og í yngri flokkunum hefur þetta alltaf verið svona; keyra, keyra, keyra. Þetta eru auðveld mörk,“ sagði Einar að endingu.