Sport

UFC-bardagamaður snéri niður byssumann á veitingastað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Holland er ekkert lamb að leika sér við.
Kevin Holland er ekkert lamb að leika sér við. Getty/Louis Grasse

Kevin Holland er öflugur bardagamaður hjá UFC og kann ýmis brögð til að ná mönnum niður. Það kom sér mjög vel á dögunum þegar hann lenti í óvæntum aðstæðum.

Holland sagði ESPN frá því að hann hefði snúið niður byssumann á veitingastað í Houston á mánudagskvöldið.

Holland var að fá sér sushi með vini sínum Patrick Robinson þegar hann heyrði háan hvell og sá fólk hlaupa í burtu.

Holland og Robinson sáu síðan að annar maður var reyna að ná byssunni af manninum sem skaut. Þeir komu til bjargar og náðu að halda manninum þar til að lögreglan kom á staðinn.

Holland náði kyrkingartaki á manninum og átti byssubrjálæðingurinn enga möguleika eftir það.

„Ég myndi ekki mæla með að næsti maður beiti þessu nema að þeir hafi hlotið góða þjálfun í þessu. Auk þess að berjast í búrinu þá æfi ég fyrst og fremst sjálfsvörn,“ sagði Kevin Holland við ESPN.

„Fyrir mig var þetta besta leiðin til að verja sjálfan mig á þessari stundu. Auk þess þá er ég hrifinn af Leðurblökumanninum,“ sagði Holland léttur.

Lögreglan staðfesti atburði kvöldsins en vildi ekki gefa upp hverjir væru vitni af því sem gerðist. Það kom líka fram að maðurinn hafði skotið úr byssunni upp í loftið en ekki að neinum gesti.

Kevin Holland hefur unnið 22 af 30 bardögum sínum þar af þann síðasta á móti Alex Oliveira 5. mars síðastliðinn. Síðasti sigur Gunnars Nelson í búrinu kom einmitt gegn Oliveira í Kanada um jólin 2018.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×