Þórhallur segir Frosta sjálfan hafa óskað eftir því að fara í leyfi þegar málið kom upp og orðið hafi verið við þeirri beiðni.
Frosti og Edda Pétursdóttir áttu í sambandi á árunum 2009-2012 og var Edda í viðtali í hlaðvarpinu Eigin konur sem birtist í Stundinni í gær. Þar sagðist Edda hafa lifað í stöðugum ótta um að fyrrverandi kærasti hennar myndi láta verða af hótunum um að dreifa kynferðislegum myndböndum af henni. Myndböndin hafi hann tekið upp án hennar vitundar á meðan þau voru enn saman.
Í yfirlýsingu Frosta, sem birtist á Facebook í gærkvöldi, sagðist hann taka fulla ábyrgð á sinni hegðun og ekki rengja hennar upplifun.
„Samband okkar var ekki heilbrigt og framkoma okkar við hvort annað langt í frá til fyrirmyndar. Ég var á mjög vondum stað á þessum tíma. Ég tók sambandsslit okkar mjög nærri mér og í kjölfar þeirra kom hryllilegt tímabil þar sem ég var haldinn þráhyggju og sagði og gerði hluti sem ég sé mikið eftir,“ sagði Frosti á Facebook.
Vísir og Stöð 2 eru í eigu Sýnar.