Körfubolti

Fjörutíu börn í rútu Njarðvíkinga sem fauk af veginum

Sindri Sverrisson skrifar
Rúta stuðningsmanna Njarðvíkur hafnaði á staur og framrúðan brotnaði, þegar þeir voru á heimleið eftir undanúrslitaleikinn við Hauka í VÍS-bikarnum.
Rúta stuðningsmanna Njarðvíkur hafnaði á staur og framrúðan brotnaði, þegar þeir voru á heimleið eftir undanúrslitaleikinn við Hauka í VÍS-bikarnum. Aðsend/Vísir/Bára

Tæplega fimmtíu stuðningsmenn Njarðvíkur, þar af um fjörutíu börn, voru í rútu sem fauk út af Reykjanesbrautinni í gærkvöld. Rúður brotnuðu en betur fór en á horfðist þó að börnunum væri skiljanlega brugðið.

Hópurinn var á heimleið til Njarðvíkur eftir að hafa stutt við kvennalið Njarðvíkur í körfubolta í undanúrslitaleiknum við Hauka í VÍS-bikarnum, í Smáranum í Kópavogi.

„Rétt áður en við vorum komin heim kom vindhviða inn í hliðina á rútunni og hún feyktist til hliðar,“ segir Agnar Mar Gunnarsson, þjálfari í yngri flokkum hjá Njarðvík, sem var einn af farþegunum í rútunni.

Rútan hafnaði á staur og framrúðan brotnaði auk þess sem rúðan í topplúgu rútunnar brotnaði. Agnar segir mildi að ekki hafi farið verr:

„Það urðu engin slys á fólki og bílstjórinn gerði náttúrulega vel í að halda rútunni á hjólum. Það er ótrúlegt hvað þetta lukkaðist vel miðað við allt saman.

Börnin voru skelkuð. Þeim var auðvitað brugðið en þau fengu fljótt stuðning. Símarnir voru náttúrulega teknir upp og foreldrarnir strax mættir.“

Þrátt fyrir góðan stuðning urðu Njarðvíkingar að sætta sig við tap í leiknum í gær, 83-57, og þeir snúa því ekki aftur í Smárann á morgun þegar bikarúrslitaleikur Hauka og Breiðabliks fer fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×