Fótbolti

Stal treyjunni af hetju Ajax eftir leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Heppinn stuðningsmaður Ajax fór heim með treyju Antonys eftir leikinn gegn Feyenoord.
Heppinn stuðningsmaður Ajax fór heim með treyju Antonys eftir leikinn gegn Feyenoord. epa/Olaf Kraak

Brasilíumaðurinn Antony skoraði sigurmark Ajax í dramatískum sigri á erkifjendunum í Feyenoord, 3-2, í hollensku úrvalsdeildinni í gær. Einn stuðningsmaður Ajax nældi sér í treyju hetjunnar eftir leik.

Antony skoraði sigurmark Ajax á 86. mínútu. Hann klæddi sig úr treyjunni og hélt á henni fyrir framan stuðningsmenn Ajax, í anda Lionels Messi. Fyrir það fékk hann gult spjald. Antony fékk svo annað gult spjald og þar með rautt fyrir að tefja í uppbótartíma.

Hann kippti sér lítið upp við það og eftir leikinn fór hann til stuðningsmanna Ajax til að fagna með þeim. Antony klæddi sig úr treyjunni í fagnaðarlátunum. Kannski ætlaði hann að gefa ungum stuðningsmanni Ajax treyjuna eða ramma hana inn og hengja upp á vegg heima hjá sér. Antony komst ekki svo langt síðan fullorðinn stuðningsmaður Ajax tók treyjuna af honum og labbaði í burtu.

Mikið gekk á í leiknum á Johann Cryuff leikvanginum í Amsterdam í gær. Stuðningsmenn Ajax kveiktu til að mynda óvart í fána fyrir leik.

Ajax er með tveggja stiga forskot á PSV Eindhoven á toppi hollensku úrvalsdeildarinnar. Feyenoord er í 3. sætinu.

Hinn 22 ára Antony hefur skorað tólf mörk fyrir Ajax í öllum keppnum í vetur. Hann er á sínu öðru tímabili hjá hollenska liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×