Sport

Valieva snýr aftur á svellið í fyrsta sinn eftir skandalinn í Peking

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kamila Valieva brotnaði saman eftir frjálsu æfingarnar í einstaklingskeppninni í listdansi á skautum á Vetrarólympíuleikunum í Peking.
Kamila Valieva brotnaði saman eftir frjálsu æfingarnar í einstaklingskeppninni í listdansi á skautum á Vetrarólympíuleikunum í Peking. getty/Nikolay Muratkin

Rússneska skautakonan Kamila Valieva snýr aftur á svellið um helgina og keppir í fyrsta sinn síðan á Vetrarólympíuleikunum í Peking.

Hin fimmtán ára Valieva var einn umtalaðasti keppandi Vetrarólympíuleikanna. Eftir að hafa hjálpað rússnesku ólympíunefndinni að vinna gull í liðakeppni í listdansi á skautum kom í ljós að hún hafði fallið á lyfjaprófi á meistaramóti Rússlands um jólin. Hjartalyfið trimetazidine fannst í sýni hennar.

Þrátt fyrir það var Valievu leyft að keppa í einstaklingskeppninni. Hún var efst eftir skylduæfingarnar en náði sér engan veginn á strik í frjálsu æfingunum og endaði í 4. sæti. Mikla athygli vakti þegar þjálfari Valievu úthúðaði henni eftir keppnina.

Heimsmeistaramótið í listdansi á skautum hefst í Montpellier í Frakklandi dag og stendur yfir fram á sunnudag. Rússum var bannað að taka þátt vegna innrásarinnar í Úkraínu og því skipulögðu þeir sitt eigið mót. Og þar snýr Valieva aftur á svellið.

Lyfjaprófið sem hún féll á er samt enn hangandi yfir henni en rússneska lyfjaeftirlitið á eftir að ákveða hvort hún fái einhvers konar refsingu. Þar í landi eru menn þó ekki beint þekktir fyrir að taka hart á ólöglegri lyfjaneyslu íþróttafólks eins og dæmin sanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×