Körfubolti

Njarð­vík ekki í neinum vand­ræðum með Breiða­blik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Njarðvíkurkonur unnu öruggan sigur í kvöld.
Njarðvíkurkonur unnu öruggan sigur í kvöld. Vísir/Bára

Njarðvík vann einkar sannfærandi 27 stiga sigur á Breiðabliki í fyrsta leik kvöldsins í Subway-deild kvenna í körfubolta, lokatölur 82-55.

Bæði lið léku í undanúrslitum VÍS-bikars kvenna um liðna helgi. Njarðvík steinlá gegn verðandi meisturum Hauka í undanúrslitum meðan Breiðablik vann stórsigur á Snæfelli en tapaði naumlega gegn Haukum í úrslitum. Virðist sem sá leikur hafi setið í Kópavogsliðinu en það átti aldrei möguleika í kvöld.

Njarðvík byrjaði leikinn af miklum krafti og leiddi með tíu stigum eftir fyrsta leikhluta. Það hægðist aðeins á sóknarleik heimakvenna í öðrum leikhluta og gestirnir voru aðeins átta stigum undir er flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Hver svo sem ræða Rúnars Inga Erlingssonar, þjálfara Njarðvíkur, var þá gekk hún fullkomlega upp. Lið hans gjörsamlega kafsigldi gestina í þriðja leikhluta og gekk í raun f´ra leiknum. Staðan að endingu 82-55 og stórsigur Njarðvíkur staðreynd.

Aliyah A'taeya Collier var stigahæst í liði Njarðvíkur með 17 stig ásamt því að taka 18 fráköst. Diane Diéné Oumou kom þar á eftir með 15 stig. Hjá Blikum voru Anna Soffía Lárusdóttir og Isabella Ósk Sigurðardóttir stigahæstar með 14 stig.

Sigurinn þýðir að Njarðvík er nú með 28 stig líkt og bæði Valur og Haukar. Liðin sita í öðru til fjórða sæti deildarinnar. Síðarnefndu liðin leika síðar í kvöld. Breiðablik er sem fyrr í næstneðsta sæti Subway-deildar kvenna með 12 stig að loknum 22 leikjum.


Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×