Fótbolti

Van Nistelrooy verður næsti knattspyrnustjóri PSV Eindhoven

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruud van Nistelrooy hefur starfað hjá PSV Eindhoven undanfarin ár sem þjálfari unglingaliða félagsins.
Ruud van Nistelrooy hefur starfað hjá PSV Eindhoven undanfarin ár sem þjálfari unglingaliða félagsins. EPA/VICTOR LERENA

Ruud van Nistelrooy verður nýjasti fyrrum lærisveinn Sir Alex Ferguson sem reynir fyrir sér sem knattspyrnustjóri.

Hollenska félagið PSV Eindhoven hefur gefið það út að Van Nistelrooy verði knattspyrnustjóri félagsins frá og með næstu leiktíð.

Van Nistelrooy tekur við starfinu af Roger Schmidt sem hættir eftir þetta tímabil.

Van Nistelrooy lék sjálfur með PSV á árunum 1998 til 2001 en hann fór þaðan til Manchester United þar sem hann skoraði 95 mörk í aðeins 150 deildarleikjum. Hollenski framherjinn spilaði einnig með Real Madrid, Hamburger SV og Málaga áður en skórnir fóru upp á hillu árið 2012.

Van Nistelrooy, sem er nú 45 ára gamall, hefur síðustu ár verið í þjálfarateymi hollenska landsliðsins sem og að þjálfa yngri lið PSV. Þetta verður hins vegar hans fyrsta starf sem aðalþjálfari.

Van Nistelrooy skrifaði undir samning við PSV sem nær til ársins 2025.

„Nokkrir hlutir hafa gengið upp síðustu mánuði. Ráðningin á Marcel Brand sem framkvæmdastjóra PSV og samtöl okkar í kjölfarið gerðu mér á endanum kleift að stíga þetta skref,“ sagði Ruud van Nistelrooy í fréttatilkynningu frá PSV Eindhoven.

„PSV ætlar að fara nýja slóð í sumar og ég er tilbúinn að gera mitt. Viðræður við stjórnina hafa stutt þá sýn mína að við erum metnaðarfullir og ætlum að búa til eitthvað sérstakt í framtíðinni. Ég er spenntur fyrir þessu verkefni hjá PSV,“ sagði Van Nistelrooy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×