Körfubolti

Kántrýstjarna frestaði tónleikum af því hann vildi ekki missa af leik UNC og Duke

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eric Church sést hér á leik Norður-Karólínu og Duke fyrir nokkrum árum.
Eric Church sést hér á leik Norður-Karólínu og Duke fyrir nokkrum árum. Getty/Peyton Williams

Kántrýstjarnan Eric Church er á tónleikaferð um Bandaríkin þessi misserin. Margir tónlistarmenn hafa þurft að fresta tónleikum út af kórónuveirunni en Church þurfti að aflýsa tónleikum vegna allt annarrar ástæðu.

Church er frá Norður-Karólínu og vildi alls ekki að missa af risaíþróttaviðburði á föstudagskvöldið.

Erkifjendurnir úr Norður-Karólínu háskóla og Duke skóla mætast þá í Final Four, undanúrslitaleik í úrslitakeppni bandaríska háskólakörfuboltans. Marsfárið hefur staðið yfir síðustu vikur og nú ráðast úrslitin um helgina.

Church er mikill körfuboltaáhugamaður og það sést á ákvörðun hans.

Annað kvöld átti Church að halda stóra tónleika í San Antonio en hann hefur nú frestað þeim.

Church tilkynnti aðdáendum sínum að hann verði þess í stað meðal áhorfenda í New Orleans til að hvetja sitt lið áfram sem lið Norður-Karólínu háskóla. Öll fjölskylda söngvarans verður líka með honum í stúkunni.

Þetta gæti verið sögulegur leikur því Mike Krzyzewski, þjálfari Duke háskóla síðustu 42 ár, er mögulega að stýra liðinu í síðasta sinn. Krzyzewski, eða „Coach K“ eins og hann er jafnan kallaður, hefur gert Duke fimm sinnum að meisturum og undir hans stjórn hefur Duke unnið yfir ellefu hundruð leiki.

Það lið sem vinnur leikinn kemst í úrslitaleikinn um háskólatitilinn. Það væri því draumur fyrir leikmenn og stuðningsfólk Norður-Karólínu háskóla að tryggja sér ekki aðeins sæti í úrslitaleiknum heldur enda um leið þjálfaraferil Krzyzewski.

Eric Church er mjög virtur og margverðlaunaður í kántrý heiminum og var meðal annars kosinn skemmtikraftur ársins 2020, „Entertainer of the Year“, á verðlaunahátíð CMA sem er samtök kántrý tónlistar iðnaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×