Hópur nemendur í Viðburða- og verkefnastjórnun við Háskóla Íslands standa að viðburðinum en það eru þau Erna Bryndís Einarsdóttir, María Björk Steinarsdóttir og Steindór Hrannar Grímarsson.
Opnunarteiti í Gallerí Fold
Í tilefni af opnun uppboðsins verður haldið opnunarteiti í húsnæði Gallerí Foldar að Rauðarárstíg 12 - 14, á morgun, 2. apríl, frá klukkan 14 - 16. Þar verður tekið hlýlega á móti gestum, sem fá tækifæri til að skoða listaverkin á uppboðinu. Verkin verða til sýningar meðan á uppboðinu stendur. Staðurinn er rampaður.
Nýjar styrktarleiðir í samfélaginu
Í fréttatilkynningu segir:
„Hér er kærkomið tækifæri fyrir þá sem vilja styrkja Landsbjörg með öðrum hætti en kaupum á flugeldum og eignast á sama tíma listaverk. Kallað hefur verið eftir nýjum styrktarleiðum í samfélaginu. Viðburðurinn er unnin í sjálfboðavinnu af öllum sem að honum koma, listamenn hafa gefið verk sín og Fold uppboðshús gefur allan söluhagnað. Landsbjörg hefur staðið í ströngu það sem af er ári, sem og undanfarin ár. Landsbjörg er stolt okkar. Hjálpum þeim að bjarga mannslífum. Stuðningur þinn skiptir máli.“
Í samtali við Vísi segir María Björk að hún hafi fundið fyrir miklum áhuga hjá listafólki sem hún hafði samband við varðandi uppboðið. Margir gáfu listaverk til styrktar Landsbjargar.
„Átta listakonur í ART67 á Laugavegi 61 gáfu sem dæmi listaverk í uppboðið í von um að styrkja Landsbjörg með góðri upphæð,“ segir María og er virkilega þakklát fyrir það gjafmilda framlag. Hún vonast eftir því að uppboðið gangi vel og segir ómetanlegt að fá stuðning frá þeim listamönnum sem gáfu list sína sem umbreytist í pening til að styrkja björgunarsveitirnar.
Uppboðið fer fram hér og nánari upplýsingar má finna á Facebook viðburði uppboðsins hér.