Enski boltinn

Ron­aldo segir Roon­ey öfund­sjúkan

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cristiano Ronaldo segir Wayne Rooney öfundsjúkan.
Cristiano Ronaldo segir Wayne Rooney öfundsjúkan. EPA-EFE/PETER POWELL

Cristiano Ronaldo hefur svarað ummælum sem Wayne Rooney lét falla fyrr í vikunni. Hann sagði þá að kaup Manchester United á Ronaldo hefðu ekki gengið upp.

Rooney, sem í dag þjálfar Derby County, var staddur í þættinum Monday Night Football þar sem hann greindi leik Crystal Palace og Arsenal ásamt því að fara yfir hitt og þetta. Þar á meðal kaup Man United á hans fyrrverandi samherja.

Í stuttu máli sagði Rooney að ef horft væri á frammistöður Man Utd í vetur þá hefðu kaupin ekki gengið upp. Ronaldo hefði vissulega skorað mikilvæg mörk en liðið þyrfti á yngri og hungraðri leikmönnum að halda.

Nú hefur Ronaldo svarað fyrir sig og að sjálfsögðu gerði hann það á samfélagsmiðlinum Instagram. Rooney birti færslu frá mánudagskvöldinu með þeim David Jones, þáttastjórnanda, og Jamie Carragher, fyrrverandi leikmanni Liverpool og núverandi sérfræðing Sky Sports.

Ronaldo sagði einfaldlega „tveir öfundsjúkir“ og á þar líklega við um Rooney og Carragher. Nema enskan hafi verið að flækjast fyrir hinum 37 ára gamla Portúgala og hann hafi ætlað að segja „too jealous“ eða „of öfundsjúkur.“

Ummæli Ronaldo við myndina sem Rooney birti hafa vakið mikla athygli.Instagram

Portúgalinn hefur skorað 18 mörk síðan hann gekk í raðir Man Utd í sumar en það er hins vegar ljóst að félagið mun ekki – frekar en síðustu ár – lyfta bikar í lok tímabils. Eina sem gæti bjargað tímabilinu er að enda í efstu fjórum sætum deildarinnar og tryggja sér þar með þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×