Körfubolti

Sara Rún stigahæst í naumu tapi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sara Rún Hinriksdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Sara Rún Hinriksdóttir í leik með íslenska landsliðinu. Alex Nicodim/NurPhoto via Getty Images

Sara Rún Hinriksdóttir og liðsfélagar hennar í Phoenix Constanta þurftu að sætta sig við sjö stiga tap er liðið heimsótti Sepsi í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum rúmensku deildarinnar í körfubolta í dag, 75-68.

Mikið jafnræði var með liðunum í dag, en heimakonur í Sepsi virtust þó vera skrefinu framar. Þær leiddu með sex stigum að loknum fyrsta leikhluta, en munurinn var kominn niður í eitt stig þegar flautað var til hálfleiks, staðan 38-37.

Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik og heimakonur héldu forskoti sínu. Þær höfðu fjögurra stiga forystu þegar komið var að lokaleikhlutanum og náðu mest 11 stiga forskoti undir lok leiks. Sara og stöllur hennar þurftu því að lokum að sætta sig við sjö stiga tap, 75-68.

Sara Rún var stigahæst í liði gestanna með 16 stig. Þá tók hún einnig fimm fráköst og gaf eina stoðsendingu.

Vinna þarf tvo leiki til að tryggja sæti sitt í úrslitaviðureigninni, en liðin mætast á ný á morgun. Sara og liðsfélagar hennar í Phoenix Constanta þurfa því á sigri að halda ef þær ætla sér ekki að fara alveg strax í sumarfrí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×