Fram kemur í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra að þyrlan, með tvo lækna innanborðs, hafi lent á vettvangi um klukkan 21:10 og flutt einn mannanna til aðhlynningar á Akureyri.
Viðbragðsaðilum barst tilkynning klukkan 19:10 frá einum þeirra sem lenti í flóðinu.
Lögreglan á Norðurlandi eystra segir í tilkynningu á Facebook að þegar fyrstu viðbragðsaðlar hafi komið á vettvang klukkan 19:55 hafi strax tveir menn fundist og var annar þeirra slasaður. Stuttu seinna fannst sá þriðji í jaðri flóðsins og var hann einnig slasaður.
Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar staðfestir það í samtali við fréttastofu að þyrlan hafi verið kölluð út á áttunda tímanum vegna snjóflóðsins.
Þá var hósplysaáætlun almannavarna virkjuð vegna flóðsins og björgunarsveitir frá Dalvík, Siglufirði og Akureyri kallaðar út. Áætlað er að um 130 viðbragðsaðilar hafi komið að aðgerðum í Svarfaðardal.
Lögreglan hyggst ekki veita frekari upplýsingar um málið eða líðan hinna slösuðu að svo stöddu.
Fréttin var uppfærð klukkan 21.