Körfubolti

Liðs­heildin hjá meisturunum skilaði sigri, magnaður Edwards og Jókerinn sá fyrsti í sögunni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Magnaður.
Magnaður. Ethan Mito/Getty Images

Alls fóru sjö leikir fram í NBA-deildinni í nótt. Meistarar Milwaukee Bucks unnu góðan sigur á Boston Celtics og Anthony Edwards skoraði 49 stig í sigri Minnesota Timberwolves.

Bucks vann sex stiga sigur á Boston, 127-121, en liðin sitja sem stendur í 2. og 3. sæti Austurdeildar. Giannis Antetokounmpo og Jrue Holiday skoruðu báðir 29 stig í liði Bucks á meðan Khris Middleton skoraði 22 stig. Hjá Boston var var Marcus Smart stigahæstur, einnig með 29 stig.

Edwards sallaði niður 49 stigum er Minnesota vann San Antonio Spurs með sama mun, 127-121. Karl-Anthony Towns bætti við 21 stigi fyrir Timberwolves á meðan Keldon Johnson var stigahæstur hjá Spurs með 20 stig. Alls skoruðu átta leikmenn Spurs tíu stig eða meira í leiknum.

Nikola Jokic var með létta sýningu fyrir gesti og gangandi er Denver Nuggets vann Memphis Grizzlies örugglega 122-109. Jókerinn skoraði 35 stig, tók 16 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. 

Hann er nú fyrsti leikmaður í sögu deildarinnar til að skora 2000 stig, taka 1000 fráköst og gefa 500 stoðsendingar á einu og sama tímabilinu.

Toronto Raptors vann góðan sigur á Philadelphia 76ers, 119-114. Pascal Siakam stigahæstur í sigurliðinu með 37 stig. Ekki nóg með það heldur var hann með þrefalda tvennu þar sem hann gaf 12 stoðsendingar og tók 11 fráköst.

Hjá 76ers var Joel Embiid stigahæstur með 30 stig ásamt því að taka 10 fráköst. James Harden skoraði aðeins 13 stig en gaf 15 stoðsendingar.

Klay Thompson skoraði 33 stig er Golden State Warriors vann Los Angeles Lakers 128-112. 

Segja má að það hafi vantað allar helstur stjörnurnar á völlinn en Stríðsmennirnir voru án Stephen Curry á meðan Lakers var án LeBron James, Anthony Davis, Carmelo Anthony og Russell Westbrook. Talen Horton-Tucker skoraði 40 stig fyrir Lakers og Malik Monk 24.

Charlotte Hornets vann 27 stiga sigur á Orlando Magic, 128-101. Þá vann New Orleans Pelicans einkar öruggan sigur á Portland Trail Blazers, 127-94.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×