Tilefni ummæla Birgis er grein Bjarna sem birtist í gærmorgun á Vísi en þar segir hann gagnrýnivert hvernig Bankasýslan hafi haldið á málum við sölu á 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka og að auðveldara verði að endurheimta traust almennings ef stjórn og forstjóri stofnunarinnar myndu víkja.
„Mér svelgdist aðeins á morgunkaffinu þegar las grein Bjarna um söluferlið á Íslandsbanka,“ segir Birgir í samtali við Innherja, en hann lét af störfum sem forstjóri Íslandspósts í nóvember 2020 eftir ósætti við suma af stjórnarmönnum fyrirtækisins, meðal annars Bjarna sem þá var stjórnformaður.
„Þó að ég viti ekkert um það söluferli sem staðið hefur yfir á Íslandsbanka þá hef ég þá skoðun að pólitísk sjónarmið og baktjalda hrossakaup eigi alls ekki að koma að rekstri fyrirtækja í almannaeigu eða meðhöndlun verðmæta í almannaeigu. Þar eiga rekstrarleg og hagkvæmnissjónarmið að ráða för,“ segir Birgir, og bætir við:
„Ég styrktist mikið í þeirri trú þegar ég starfaði sem forstjóri Íslandspósts og kynntist pólitískt skipuðum stjórnarmönnum og þeirra vinnubrögðum. Þó að sumir þeirra væru að starfa af heilindum samkvæmt hlutafélagalögum, enda um að ræða opinbert hlutafélag, þá voru aðrir sem töldu að rekstur fyrirtækisins ætti að endurspegla áherslur stjórnmálaflokkana sem skipuðu þá í stjórnina. Þá skipti engu hvort tap eða hagnaður yrði af starfseminni bara hvernig baklandið eða flokkurinn myndi dæma leikinn,“ að sögn Birgis.
Á sama tíma var ég í endalausu stappi við stjórnarformann félagsins sem var alltaf í tilvistarkreppu þegar hagsmunir Íslandspósts og hluthafa, sem eru almenningur, fóru ekki saman við áherslur hans flokks eða hans sjálfs sem stjórnmálamanns.
Hann segir að starf sitt og samstarfsmanna hjá Íslandspósti á sínum tíma – Birgir stýrði fyrirtækinu í um átján mánuði – hafi verið að reyna að reyna að snúa við gríðarlegum taprekstri og lágmarka það fé sem ríkissjóður þurfti að setja inn í reksturinn.
„Á sama tíma var ég í endalausu stappi við stjórnarformann félagsins sem var alltaf í tilvistarkreppu þegar hagsmunir Íslandspósts og hluthafa, sem er almenningur, fóru ekki saman við áherslur hans flokks eða hans sjálfs sem stjórnmálamanns. Þarna sá ég að það bruðl og óhagkvæmni sem hefur einkennt ríkisreksturinn á Íslandi er tilkominn vegna þess að pólitískar áherslur og hagkvæmni í rekstri fer alls ekki saman,“ segir Birgir.
Það hafi því komið honum „á óvart að minn gamli stjórnarformaður, Bjarni Jónsson, hafi núna skipt svona hressilega um skoðun og sé orðinn hreintrúa. Ég myndi segja að hann væri holdgervingur þess að pólitísk hrossakaup fari alls ekki saman við meðhöndlun fyrirtækja eða verðmæta í almannaeigu og að með þessari grein hans væri potturinn að skamma ketilinn fyrir að vera sótugur,“ segir Birgir.
Mikill styr hefur staðið um söluferlið á Íslandsbanka sem lauk miðvikudaginn 23. mars síðastliðinn þegar ríkissjóður seldi 22,5 prósenta hlut í bankanum fyrir tæplega 53 milljarða króna. Salan fór fram með hröðuðu tilboðsfyrirkomulagi til þeirra sem uppfylltu skilyrði þess að vera fagfjárfestar og verðið í útboði ríkissjóðs ákvarðað 117 krónur á hlut, eða um 4 prósentum lægra en lokaverð síðasta viðskiptadags. Það stendur núna í 128 krónum á hlut og hefur hækkað um ríflega 9 prósent frá þeim tíma.
Á meðal þeirra sem keyptu voru samtals 140 innlendir einkafjárfestar fyrir samanlagt 16 milljarða króna, eða tæplega 31 prósent þeirrar fjárhæðar sem ríkissjóður seldi. Þeir einkafjárfestar sem keyptu fyrir minna en 30 milljónir króna voru 59 talsins en í þeim hópi voru meðal annars starfsmenn þeirra fjármálafyrirtækja sem voru söluráðgjafar við útboðið.
Ríkisendurskoðun hefur fallist á beiðni Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra að gera úttekt á söluferli Íslandsbanka og er niðurstöðu hennar að vænta í júní.
Bankasýsla ríkisins, sem sá um framkvæmd sölunnar fyrir hönd ríkissjóðs, hefur gefið út yfirlýsingu þar sem öllum sjónarmiðum um að lög kunni að hafa verið brotin við söluferlið er vísað á bug.