Oft er það þó svo að það eru leiðtogarnir sjálfir sem skapa vantraust.
Forstjórar eru hér nefndir sérstaklega.
Það að skapa vantraust er þó oftast eitthvað sem enginn ætlar sér.
Í ágætri grein Forbes er farið yfir nokkur dæmi um það þegar leiðtogar skapa vanstraust og þá oft ómeðvitað eða óviljani (e. How Leaders Destroy Trust Unintentionally).
Fyrir það fyrsta ber að nefna þau mistök að forstjóri miðli eingöngu upplýsingum til fárra útvalinna en ekki liðsheildarinnar, þótt tilefni sé til að gera það.
Eða þegar forstjóri deilir upplýsingum til framkvæmdastjórnar undir þeim formerkjum að starfsmenn eigi ekki að vera upplýstir um tiltekið mál. Sem þó eins og oftast er, lekur út til einhverra með þeim afleiðingum að vantraust skapast hjá þeim hópi fólks sem áttar sig á að sumir vita meira en aðrir.
Forstjórar eiga það líka til að falla í þá gryfju að velja sína uppáhalds samstarfsmenn. Þetta er oft fólk sem forstjóranum finnst þægilegast að vinna með eða ræða við. Að velja úr hópnum nokkra aðila sem forstjórar hampa jafnvel umfram aðra, er hins vegar taktík sem fljótt fer ekki framhjá neinum. Upplifun annarra er þá sú að forstjórinn sé að velja sér nokkra aðila frekar en að velja liðsheildina eða horfa á það hvernig aðrir eru að standa sig.
Forstjórar geta líka skapað vantraust með afskiptasemi eða álitsgjöf, sem í raun er að taka fram í fyrir hendurnar á þeim stjórnanda eða starfsmanni sem samkvæmt starfslýsingu ber ábyrgð á verkefninu.
Vantraust getur líka skapast á milli deilda. Ef forstjórinn vinnur ekki markvisst að því að það sé gott flæði upplýsinga innan alls fyrirtækisins eða samstarf og samskipti tryggð, getur afleiðingin orðið sú að fólk lítur ekki á starfsfólk annarra deilda sem sitt samstarfsfólk.
Enn eitt hættumerkið er þegar vinnustaðir tala fyrir mikilvægi mannauðs og liðsheildar en það virkar meira í orði en á borði. Ef að traust á að ríkja, þarf hver einasti starfmaður að upplifa sig sem hluta af mikilvægum mannauði. Að miðla reglulegum upplýsingum til allra getur verið góð leið til að skapa þetta traust.
Hvernig standa þessi mál á þínum vinnustað?