Breska ríkisútvarpið greinir frá því að atvikið hefði átt sér stað 4. apríl síðastliðinn. Lyoya hefði verið stöðvaður í umferðinni af lögreglumanni í Grand Rapids í Michigan, komið út úr bíl sínum en verið beðinn um að setjast aftur inn. Hann hafi ekki sinnt því en rætt við lögreglumanninn.
Eftir stutt samtal sést Lyoya taka á rás frá lögreglumanninum, sem eltir hann uppi og grípur í hann. Því næst takast þeir á um rafbyssu lögreglumannsins, hvers búkmyndavél varð óvirk í miðjum átökum. Hins vegar sýnir farsímamyndband farþega í bíl Lyoya hvernig lögreglumaðurinn nær Lyoya niður á jörðina, þannig að hann liggur á maganum.
„Slepptu rafbyssunni,“ heyrist lögreglumaðurinn kalla áður en hann tegir sig í skammbyssu sína og miðar aftan á höfuð Lyoya. Myndbönd sýna ekki þegar lögreglumaðurinn tekur í gikkinn og hleypir af, heldur hefur myndbandið verið klippt áður en það var gefið út af lögreglu, en í lok þess sést Lyoya liggja hreyfingarlaus á jörðinni.
Myndband af atvikinu má sjá hér að neðan, en rétt er að vara við efni þess.
Lögreglumaðurinn í málinu er nú kominn í ótímabundið leyfi, en nafn hans verður ekki gert opinbert nema hann verði ákærður í málinu. Lögmaður fjölskyldu Lyoya hefur krafist þess að lögreglumaðurinn verði rekinn.
„Patrick beitti lögreglumanninn engu ofbeldi, jafnvel þótt lögreglumaðurinn hafi beitt hann ofbeldi í nokkur skipti,“ hefur BBC eftir lögmanninum.
Mótmælendur vilja nafn
Málið hefur vakið nokkra reiði í Michigan. Í gær söfnuðust mótmælendur saman fyrir utan lögreglustöðina í Grand Rapids, og krafist þess að nafn lögreglumannsins verði gert opinbert.
Reglulega berast fréttir af því frá Bandaríkjunum að lögregla skjóti svart, óvopnað fólk sem hún hefur afskipti af.
Í maí 2020 reis til að mynda ógnarstór alda mótmæla eftir að Derek Chauvin, hvítur lögreglumaður, drap George Floyd, sem var svartur, með því að þrýsta hné sínu að hálsi Floyd í meira en níu mínútur. Chauvin var síðar sakfelldur fyrir morðið á Floyd.