Lögregla telur að á Austurvelli hafi komið saman um fjögur til fimm hundruð manns. Slagorðið var „Bjarna burt“, sem kyrjað var við miklar undirtektir.
Það hefur gustað um ríkisstjórnina, og einkum Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra, vegna Íslandsbankasölunnar síðustu daga. Hún sætti áfram harðri gagnrýni í dag og í þeim efnum var séra Davíð Þór Jónsson einna aðsópsmestur.
„Krafa okkar er skýlaus og sanngjörn. Burt með siðblindingjana úr fjármálakerfinu. Burt með strengjabrúður auðvaldsins úr ríkisstjórn. [...] Það sem blasir við okkur er ógeð á ógeð ofan. Það sem blasir við okkur er að þessu ógeði þarf að bylta. Og það þarf að bylta því núna,“ sagði Davíð í ræðu sinni.
Ræðu Davíðs Þórs má horfa á í heild sinni hér fyrir neðan.
Upplifir allt upp á nýtt
Annar ræðumaður, Halldóra Mogensen þingmaður Pírata, vildi fjármálaráðherra tafarlaust úr embætti og sagði ábyrgð forsætisráðherra og innviðaráðherra einnig mikla. Og krafa mótmælenda sem hlýddu á ávörpin var skýr.
„Ég vil allavega að Bjarni fari burt og segi af sér og axli ábyrgð á þessu hneyksli,“ sagði Bergljót Þorsteinsdóttir.

Sandra Guðmundsdóttir og Magnús Magnússon voru á sama máli.
„Við ákváðum fyrir síðasta hrun að við vildum ekki búa í þessu landi, fluttum í annað land. Bjuggum þar í fjögur ár, komum heim aftur því við erum Íslendingar. Og mér finnst ég vera að upplifa allt aftur. Í morgun var ég komin á netið á Finn.is að leita mér að húsnæði í Noregi. Ég hef ekki orð yfir þetta, ég er svo sorgmædd,“ sagði Sandra.
„Þetta er náttúrulega öll stjórnin. Vinstri grænir eiga að fara að hugsa sinn gang,“ sagði Magnús.