Körfubolti

Sigur í fyrsta leik Elvars með Tortona

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson í leik með íslenska landsliðinu.
Elvar Már Friðriksson í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Bára

Elvar Már Friðriksson lék sinn fyrsta leik með Tortona í ítölsku úrvalsdeildinni í körfubolta þegar liðið tók á móti Varese í dag. Elvar og félagar höfðu yfirhöndina stærstan hluta leiksins og unnu að lokum góðan fimm stiga sigur, 104-99.

Fyrri hálfleikur var þó heldur kaflaskiptur þar sem Elvar og félagar náðu fljótt átta stiga forskoti í fyrsta leikhluta. Gestirnir minnkuðu muninn þó hratt, en heimamenn leiddu með einu stigi að loknum fyrsta leikhluta.

Elvar og félagar juku forskot sitt svo jafnt og þétt í öðrum leikhluta og þegar flautað var til hálfleiks var munurinn orðinn níu stig, staðan 54-45, Tortona í vil.

Heimamenn í Tortona náðu svo mest 18 stiga forskoti snemma í síðari hálfleik, en náðu ekki að fylgja góðri byrjun eftir og gestirnir minkuðu muninn aftur niður í tíu stig áður en komið var að lokaleikhlutanum.

Þar reyndust gestirnir sterkari aðilinn, en Elvar og félagar héldu þeim þó í hæfilegri fjarlægðþ Heimamenn í Tortona unnu að lokum góðan fimm stiga sigur, 104-99.

Elvar spilaði rétt tæpar tíu mínútur fyrir Tortona og skoraði fimm stig. Hann tók einnig þrjú fráraköst og gaf fimm stoðsendingar á liðsfélaga sína. Tortona situr nú í fjórða sæti deildarinnar með 30 stig eftir 27 leiki, líkt og Venezia.

Varese situr hins vegar í tíunda sæti með 22 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×