Erlent

Segir lög­­reglu hafa verið megin­­s­kot­­mark mót­mælenda

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Anders Thornberg er ríkislögreglustjóri Svíþjóðar.
Anders Thornberg er ríkislögreglustjóri Svíþjóðar. EPA/Claudio Bresciani

Á þriðja tug lögreglumanna og 14 mótmælendur eru slasaðir eftir óeirðir víða um Svíþjóð um helgina. Óeirðirnar vöknuðu í kringum Kóranbrennu öfga-hægri stjórnmálamannsins Rasmus Paludan. Lögregla telur að skipulögð glæpagengi hafi tekið þátt í árásum á lögreglumenn.

Aftenposten hefur eftir Anders Thornberg, ríkislögreglustjóra Svíþjóðar, að stór hluti þeirra sem tóku þátt í óeirðunum hafi tengsl við skipulagða glæpahópa. Óeirðirnar hafa teygt anga sína víða, til að mynda til Stokkhólms, Örebro, Malmö, Linköing og Norrköping.

Margir mótmælenda voru afar óánægðir með fyrirætlanir Paludan um að halda brennu á Kóraninum, sem er heilögust rita í Íslamstrú. Lögregla segir að margir mótmælenda hafi gert lögreglu að meginskotmarki sínu, fremur en þá sem að viðburðinum stóðu.

„Að meðaltali hafa um 200 mótmælendur beitt ofbeldi á hverjum stað. Lögregla hefur þurft að beita vopnum í sjálfsvörn. Það eru teikn á lofti um að lögregla hafi verið skotmark mótmælendanna, fremur en þeir sem skipulögðu viðburðinn,“ er haft eftir Thornberg.

Lögreglan hefur sjálf verið harðlega gagnrýnd fyrir að gefa leyfi fyrir viðburðinum, þar sem Kóraninn var brenndur. Þannig hefur prófessor í afbrotafræði meðal annars sagt að slíkt leyfi hefði aldrei átt að fást, enda hefði lögregla getað reiknað með því hvers konar viðbrögð slíkur viðburður myndi kalla fram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×