Körfubolti

Vara­maðurinn Curry magnaður og Dallas jafnaði metin án Luka

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stephen Curry nýtti mínúturnar vel í nótt.
Stephen Curry nýtti mínúturnar vel í nótt. AAron Ontiveroz/Getty Images

Þrír leikir fóru fram í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt. Stephen Curry og félagar í Golden State Warriors eru farnir að munda sópinn eftir öruggan sigur á Denver Nuggets. Sama má segja um Philadelphia 76ers og þá tókst Dallas Mavericks að jafna metin gegn Utah Jazz.

Stephen Curry hóf leik Warriors og Nuggets á varamannabekknum en hann hefur verið að glíma við meiðsli að undanförnu. Það gæti verið að Steve Kerr, þjálfari Stríðsmannanna, haldi Curry á bekknum þegar hann verður heill heilsu ef það lætur hann spila jafn vel og í nótt.

Skyttan magnaða fór hreinlega á kostum í 20 stiga sigri Golden State, 126-106. Staðan 2-0 í einvíginu og virðist ljóst að Denver á ekki möguleika gegn léttleikandi liði Golden State.

Alls skoraði Curry 34 stig á aðeins 23 mínútum. Einnig tók hann þrjú fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Næst stigahæstur í liði Warriors var Jordan Poole með 29 stig – og átta stoðsendingar – en Klay Thompson kom þar á eftir með 21 stig. Nikola Jokić var að venju stigahæstur hjá Nuggets. Hann skoraði 26 stig og tók 11 fráköst.

Dallas Mavericks eru án hins ótrúlega Luka Dončić en það kom ekki að sök í nótt. Liðið vann sex stiga sigur á Utah, 110-104, og jafnaði metin í einvíginu. Staðan nú 1-1 og íbúar Dallas biðja til æðri máttarvalda um að Luka verði með það sem eftir lifir einvígisins.

Dallas var sjóðandi heitt fyrir utan þriggja stiga línuna en alls fóru 22 þriggja stiga skot niður í leiknum. Lagði það grunninn að góðum sigri.

Jalen Brunson var svo sá leikmaður liðsins sem steig hvað mest upp í fjarveru Luka í nótt en hann bauð upp á 41 stig, átta fráköst og fimm stoðsendingar. Brunson hefur aldrei skorað meira í leik í NBA-deildinni og þá tapaði hann boltanum ekki einu sinni í leiknum.

Hann er þar með fyrsti leikmaður í sögu Dallas til að skora 40 stig eða meira í leik í úrslitakeppninni án þess að missa boltann einu sinni frá sér.

Hjá Jazz skoraði Donovan Mitchell mest allra eða 34 stig. Þar á eftir kom Bojan Bogdanović með 25 stig.

Að lokum er Philadelphia 76ers komið 2-0 yfir gegn Toronto Raptors, lokatölur í nótt 112-97. Joel Embiid skoraði 31 stig og tók 11 fráköst fyrir 76ers. Þar á eftir kom Tyrese Maxey með 23 stig, níu fráköst og átta stoðsendingar. James Harden skoraði aðeins 14 stig en gaf sex stoðsendingar og tók sex fráköst.

Hjá Raptors skoraði OG Anunoby 26 stig og var stigahæstur. Þar á eftir komu Pascal Siakam og Fred VanVleet báðir með 20 stig.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×