Enski boltinn

Fær 200 milljónir punda til að eyða í nýja leik­menn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
„Ég vil þennan, þennan og þennan,“ gæti Ten Hag verið að segja hér.
„Ég vil þennan, þennan og þennan,“ gæti Ten Hag verið að segja hér. EPA-EFE/Maurice van Steen

Erik ten Hag var loks staðfestur sem stjóri enska fótboltafélagsins Manchester United í dag og nú herma nýjustu fregnir að hann fái allt að 200 milljónir til að eyða í nýja leikmenn.

Í gær greindi Vísir frá því að tiltekt væri þegar hafin innan raða Manchester United þar sem tveir háttsettir menn er kemur að því að finna nýja leikmenn eru horfnir á braut. Þá hefur verið talað um að tíu til tólf leikmenn séu á förum frá félaginu.

Fjöldi leikmanna er að renna út á samning og þá er stefnt að því að selja þónokkra leikmenn sem Ralf Rangnick, tímabundinn þjálfari liðsins, telur ekki nægilega góða. Eflaust er Ten Hag hafður með í ráðum.

Þeir Paul Pogba, Jesse Lingard, Juan Mata, Edinson Cavani og Lee Grant renna allir út á samning í sumar. Þá er talið að fjöldi leikmanna sé til sölu.

Samningur serbneska miðjumannsins Nemanja Matic mun einnig renna út í sumar þar sem félagið samþykkti að rifta samningi hans að tímabilinu loknu þó svo að hann ætti að gilda til sumarsins 2023. Talið er að Matic fari í opinn faðm José Mourinho í Rómarborg. Yrði það í þriðja skiptið sem hann spilar undir stjórn Mourinho.

Samkvæmt frétt Sky Sports mun Ten Hag fá allt að 200 milljónir punda til að eyða í nýja leikmenn og þá er ekki talið með það fjármagn sem gæti komið í kassann við sölur á leikmönnum.

Að lokum segir á vef Sky Sports að Man United hafi samþykkt að borga Ajax tvær og hálfa milljón punda fyrir bæði Ten Hag sem og aðstoðarmann hans Mitchell van der Gaag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×