Íslenski boltinn

Engin vandræði hjá Fylki og Kórdrengjum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fylkir fór áfram í bikarnum.
Fylkir fór áfram í bikarnum. Vísir/Vilhelm

Keppni í Mjólkurbikar karla í fótbolta hélt áfram í dag. Alls fóru fimm leikir fram og þar ber helst að nefna leiki Fylkis og Kórdrengja. Bæði lið leika í Lengjudeildinni í sumar og unnu 5-0 sigra á liðum sem leika í 4. deild, Fylkir gegn Úlfunum og Kórdrengir gegn Álftanesi.

Eftir að hafa komist 2-0 yfir snemma leiks þökk sé mörkum Benedikt Daríusar Garðarssonar og Nikulás Vals Gunnarssonar þá létu mörkin á sér standa hjá Fylki. Staðan var 2-0 í hálfleik en á 54. mínútu bætti Birkir Eyþórsson við þriðja markinu.

Nikulás Val og Birkir bættu svo við sitthvoru markinu undir lok leiks og lokatölur 5-0 Fylki í vil.

Álftanes stóð aðeins lengur í Kórdrengjum en fyrsta markið kom ekki fyrr en á 25. mínútu leiksins. Fatai Adebowale Gbadamosi skoraði svo tvívegis fyrir Kórdrengi áður en fyrri hálfleik lauk og staðan 3-0 í hálfleil.

Líkt og í hinum leiknum kláraði Lengjudeildarliðið leikinn endanlega undir lok leiks. Guðmann Þórisson með mark á 87. mínútu og Þórir Rafn Þórisson slíkt hið sama þremur mínútum síðar, lokatölur 5-0.

Önnur úrslit voru þau að Höttur/Huginn vann 3-2 sigur á Einherja. Reynir Sandgerði vann 4-0 útisigur á Uppsveitum og Ægir vann 1-0 sigur á KFS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×