Evrópumeistarar Barcelona sýndu mátt sinn og megin er þeir mættu Sveindísi Jane Jónsdóttur og stöllum hennar í Wolfsburg í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu. Staðan var orðin 2-0 eftir aðeins tíu mínútur og lauk leiknum með 5-1 sigri Börsunga.
Sveindís Jane var í byrjunarliði Wolfsburg en það var ljóst að liðið þyrfti að eiga sinn besta leik til að eiga roð í besta félagslið heimsins i dag. Það má því segja að um martraðarbyrjun hafi verið að ræða þegar Aitana Bonmati kom Barcelona yfir strax á 3. mínútu leiksins.
Fridolina Rolfo átti frábæra sendingu inn fyrir vörn gestanna og Bonmati kláraði færið af mikilli yfirvegun.
Gestirnir fóru úr öskunni í eldinn skömmu síðar en eftir aðeins tíu mínútna leik var staðan orðin 2-0 og verkefni Wolfsburg nær ómögulegt. Hin norska Caroline Graham Hansen með markið eftir frábæran sprett. Það er ekki að ástæðulausu að hún er talin vera kvenkyns (norskur) Lionel Messi.
Wolfsburg fékk í kjölfarið færi til að minnka muninn og koma lífi í einvígið en allt kom fyrir ekki. Irene Paredes með frábæra tæklingu og Sandra Panos svo með góða markvörslu.
Tvö mörk undir lok fyrri hálfleiks gerðu svo endanlega út um leikinn og í raun viðureignina. Fyrst skoraði Jennifer Hermoso eftir að Börsungar tættu vörn gestanna í sig.
Svo skoraði besta fótboltakona heims – Alexia Putellas - einkar auðvelt mark þegar hún hún slapp í gegnum miðja vörn Barcelona.
Staðan 4-0 í hálfleik og einvígið svo gott sem búið. Í upphafi síðari hálfleiks var mark dæmt af Börsungum og gestirnir fengu ekki beint líflínu en allavega eitthvað til að taka með heim til Þýskalands þegar Jill Roord skoraði á 73. mínútu leiksins.
Staðan orðin 4-1 og með einu marki til viðbótar hefði Wolfsburg mögulega getað gert eitthvað á heimavelli. Þær vonir dóu þegar fimm mínútur voru til leiksloka en þá fengu heimakonur vítaspyrnu.
Putellas fór á punktinn og það var ekki að spyrja að leikslokum, boltinn endaði í netinu og lokatölur á troðfullum Nývangi 5-1. Sveindís Jane spilaði allan leikinn í liði Wolfsburg.