FH tapaði fyrsta leiknum á heimavelli og því lengist enn bið félagsins eftir sigurleik í úrslitakeppni.
FH-ingar fögnuðu síðast sigri í úrslitakeppni 15. maí 2018 og síðan er því liðin næstum því fjögur ár.
FH jafnaði þá úrslitaeinvígið á móti ÍBV með 28-25 sigri í Kaplakrika. Síðan þá hefur FH spilað sjö leiki í röð án þess að fagna sigri.
Næsti leikur var afdrifaríkur því í honum meiddist Gísli Þorgeir Kristjánsson illa, fékk þungt höfuðhögg og meiddist illa á öxl. Þessi axlarmeiðsli eru meiðsli sem landsliðsmaðurinn glímdi við í langan tíma á eftir.
ÍBV vann tvo síðustu leiki einvígisins með samtals fimmtán mörkum og tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn.
Eyjamenn hafa síðan slegið FH-inga út úr síðustu tveimur úrslitakeppnum og það sem meira er að FH vann ekki einn leik í þessum einvígum.
ÍBV vann báða leikina í einvíginu 2019 og í fyrra gerðu liðin jafntefli í báðum leikjum en Eyjamenn fóru áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.
Leikur Selfoss og FH hefst klukkan 19.30 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4. Upphitun Seinni bylgjunnar hefst klukkan 19.00 á sömu stöð og eftir leikinn verða báðir leikir kvöldsins gerðir upp af Seinni bylgju mönnum.
- Síðustu leikir FH í úrslitakeppni
- 2022
- 1 marks tap á móti Selfossi (27-28) í átta liða úrslitum
- 2021
- Jafntefli á móti ÍBV (33-33) í leik tvö í átta liða úrslitum
- Jafntefli á móti ÍBV (31-31) í leik eitt í átta liða úrslitum
- 2019
- 8 marka tap á móti ÍBV (28-36) í leik tvö í átta liða úrslitum
- 5 marka tap á móti ÍBV (22-38) í leik eitt í átta liða úrslitum
- 2018
- 8 marka tap á móti ÍBV (20-28) í leik fjögur í lokaúrslitum
- 7 marka tap á móti ÍBV (22-29) í leik þrjú í lokaúrslitum
- 3 marka sigur á ÍBV (28-25) í leik tvö í lokaúrslitum
Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.