Enski boltinn

Guar­diola segir að City þurfi tvo stór­kost­lega leiki en þeir ætla að vera þeir sjálfir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola fylgist hér með liði Manchester City af hliðarlínunni.
Pep Guardiola fylgist hér með liði Manchester City af hliðarlínunni. AP/Dave Thompson

Manchester City og Real Madrid mætast í kvöld í fyrri undanúrslitaleik liðanna í Meistaradeildinni en þarna mætast liðið sem hefur verið að bíða svo lengi eftir þeim stóra á móti liðinu sem hefur unnið hann oftar en öll önnur félög í Evrópu.

Manchester City er á toppnum í ensku úrvalsdeildinni og komst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrra. Liðið tapaði þar 1-0 fyrir Chelsea og biðin lengdist því enn. Real Madrid hefur unnið Evrópukeppni meistaraliða og Meistaradeildina samtals þrettán sinnum.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, ræddi leikinn á blaðamannafundi í gær.

„Það er engin þörf á því að tala um það hversu gott lið Real Madrid er,“ sagði Pep Guardiola.

„Ef við þyrftum að keppa við söguna þeirra þá ættum við ekki möguleika. Sagan er skráð og við getum ekki breytt henni. Það verða hins vegar ellefu á móti ellefu að elta einn bolta í þessum leik,“ sagði Guardiola.

„Við munum reyna að vera við sjálfir og spila vel. Við verðum að spila tvo stórkostlega leiki til að komast í úrslitaleikinn,“ sagði Guardiola.

„Það er heiður að vera hér í undanúrslitunum á móti Real Madrid. Þeir hafa verið hér svo oft en við höfum komist hingað líka á síðustu árum,“ sagði Guardiola.

Manchester City sló annað spænskt lið, Atletico Madrid, út í átta liða úrslitunum, 1-0 samanlagt. Seinni leikurinn fer fram á Bernabeu-leikvanginum 4. maí en úrslitaleikurinn verður síðan á Stade de France 28. maí.

Liðið sem hefur betur í leikjum Manchester City og Real Madrid mætir liðinu sem vinnur einvígi Liverpool og Villarreal. Þau spila fyrri leik sinn á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×