Aðalfundur var haldinn í dag og skipaði fjármála- og efnahagsráðherra í stjórn Landsvirkjunar, samkvæmt lögum um fyrirtækið.
Aðalmenn í stjórn Landsvirkjunar eru Jónas Þór Guðmundsson, Álfheiður Ingadóttir, Gunnar Tryggvason, Jón Björn Hákonarson og Soffía Björk Guðmundsdóttir. Sú breyting varð því, að Soffía Björk kom ný inn í stjórn í stað Hákonar Hákonarsonar.
Varamenn í stjórn Landsvirkjunar eru Jens Garðar Helgason, Ragnar Óskarsson, Guðveig Eyglóardóttir, Jón Bragi Gunnlaugsson og Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.
Aukið svigrúm til aðrðgreiðslna eftir lækkun skuldahlutfalls
Aðalfundurinn samþykkti skýrslu fráfarandi stjórnar og samstæðureikning fyrir liðið reikningsár. Á aðalfundinum var jafnframt samþykkt tillaga stjórnar um arðgreiðslu til ríkisins upp á fimmtán milljarða króna fyrir árið 2021. Í ávarpi stjórnarformanns í ársskýrslu 2021 segir að ákveðin tímamót í rekstri félagsins gefi svigrúm til arðgreiðslna.
„Ákveðin tímamót urðu í rekstri Landsvirkjunar árið 2021, þegar skuldahlutföll urðu sambærileg við sömu mælikvarða hjá systurfyrirtækjunum á Norðurlöndum. Þetta þýðir að ekki þarf lengur að leggja höfuðáherslu á lækkun skulda og meira svigrúm er til þess að greiða arð til eiganda Landsvirkjunar, íslensku þjóðarinnar,“ segir Jónas Þór Guðmundsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar.