Erlent

Segir af sér eftir að hafa horft á klám í stundarbrjálæði

Smári Jökull Jónsson skrifar
Parish var að skoða dráttarvélar á netinu þegar klámmyndband birtist óvænt í síma hans.
Parish var að skoða dráttarvélar á netinu þegar klámmyndband birtist óvænt í síma hans. Facebook

Breski þingmaðurinn Neil Parish hefur sagt af sér eftir að hafa viðurkennt að hafa horft á klám í þingsal. Hann segir að þetta hafi gerst í stundarbrjálæði.

Parish tilkynnti um afsögn sína nú eftir hádegið og viðurkenndi að hafa horft á klámfengið efni í tvígang. Tvær samflokkskonur sögðu hann hafa horft á efni í þingsal sem og á nefndrfundi. Áður hafði hann viðurkennt að hann hefði horft í eitt skipti fyrir slysni og að rannsókn myndi leiða það í ljós.

Nú hefur Parish hins vegar stigið fram og segir í viðtali við Sky News að hann muni segja af sér. Hann segir að hann hafi í tvígang horft á klámfengið efni í vinnu sinni. Í fyrra skiptið hafi það gerst óvart þegar hann var að skoða myndbönd af dráttarvélum og seinna skiptið hafi verið í stundarbrjálæði.

Talsmaður Íhaldsflokksins í kjördæmi Parish segir að flokkurinn styðji ákvörðun Parish um að segja af sér. Samkvæmt Sky News voru vinir hins 65 ára gamla Parish, sem einnig starfar sem bóndi, ósáttir með að hann hafi ekkert tjáð sig og leyft flokksfélögum að stíga fram með ýmsar getgátur um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×