Fótbolti

Celtic með níu fingur á titlinum eftir jafntefli í toppslagnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Það er ekkert gefið eftir þegar Celtic og Rangers mætast í skoska boltanum.
Það er ekkert gefið eftir þegar Celtic og Rangers mætast í skoska boltanum. Ian MacNicol/Getty Images

Celtic er nú hársbreidd frá því að endurheimta skoska meistaratitilinn eftir að liðið gerði 1-1 jafntefli gegn ríkjandi meisturum og erkifjendum liðsins, Rangers, í dag.

Heimamenn í Celtic tóku forystuna um miðjan fyrri hálfleikinn með marki frá Jota og staðan var því 1-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Fashion Sakala jafnaði metin fyrir Rangers þegar rúmar tuttugu mínútur voru til leiksloka og þar við sat. Niðurstaðan varð því 1-1 jafntefli, en stigið fleytir Celtic langleiðina í átt að skoska deildarmeistaratitlinum.

Celtic er nú með sex stiga forskot á Rangers þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir, og það verður að teljast ansi ólíklegt að liðið kasti því forskoti frá sér.

Rangers varð skoskur meistari á seinasta tímabili í fyrsta sinn síðan árið 2011, en síðan hafði Celtic unnið deildina níu ár í röð. Nú stefnir í að Celtic muni endurheimta titilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×